Upptökur frá morgunfundinum Vatnið og orkan 2014
Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, hélt erindi um sjálfbærnivísa fyrir vatnsafl og jarðhita og velti því fyrir sér hvernig þeir geti nýst við skipulags- og framkvæmdaáætlanir á Íslandi.
Aðrir fyrirlesarar voru Jörg Hartmann sjálfstæður ráðgjafi, Stefán Gíslason formaður verkefnisstjórnar Rammaáætlunar og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands sem fjallaði um loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á vatnafar og hvaða afleiðingar það hefur fyrir okkur.
Áhugaverðar umræður urðu í lok fundarins þar sem gestum gafst tækifæri til að spyrja fyrirlesarana spjörunum úr.
Alþjóðadagur vatnsins, sem er síðar í marsmánuði, er undir verndarvæng Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og er dagurinn á þessu ári helgaður vatni og orku. Það var Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofan og Landsvirkjun sem stóðu fyrir ráðstefnunni í tilefni af alþjóðadegi vatnsins.