Fréttir


Hvaða orkueinkunn fær húsnæði þitt?

26.2.2014

Er húsnæði þitt að nota of mikla orku til hitunar? Orkusetur hefur sett upp reiknivél þar sem hægt er að finna orkunotkun á m2 og hvaða einkunn húsnæði þitt fær með tilliti til orkunotkunar til upphitunar.  Kerfið er einkum hugsað fyrir íbúðir með rafhitun enda er orkukostnaður hjá þeim hópi mun meiri en annarra.

Kerfið er einfalt og það eina sem húseigandi þarf að gera er að setja inn fermetrafjöldann og velja hvort húsnæðis sé einbýli, fjölbýli eða raðhús. Því næst  setur hann inn árlega orkunotkun samkvæmt orkureikningi (ef djúpt er á orkureikningnum er um að gera að hafa samband við orkusalann).  Niðurstaðan kemur upp sem orkunotkun á fermetra og einkunn á bilinu A-G þar sem A þýðir afar góð orkunýtni en G slæm.

Notast er við orkumerkingastaðla frá Noregi sem falla ágætlega að íslenskum aðstæðum.  Einkunnin gefur sterkar vísbendingar um stöðu orkunotkunar og ef íbúðin fær lága einkunn er líklegt að svigrúm til orkusparandi aðgerða sé umtalsvert.  Með ýmsum aðgerðum má bæta þessa einkunn, allt frá ókeypis ráðum til umfangsmeiri fjárfestinga.

Kröfur íbúa varðandi húshitun eru oftast þær að innihitastig sé í kringum 20 gráður allan ársins hring.  Með öðrum orðum þá eru sömu kröfur gerðar til hvaða húsnæðis sem er en einhverra hluta vegna er orkuþörfin, og þar með kostnaðurinn oft mismunandi milli húsa.  Að sjálfsögðu þarf stórt húsnæði meiri orku til hitunar en lítið og þess vegna er mikilvægt að bera saman orkuþörf á hvern upphitaðan fermetra.  Fjöldi kWst/m2 er lítið notað og í byggingarfræðunum er jafnan talað um upphitunarþörf á rúmmetra.  Gallinn við rúmmetra er að almenningur notast sjaldan við þá stærð á meðan allir vita hversu stórt húsnæði er í fermetrum.  Orkusetur hefur sett upp reiknivél þar sem hægt er að finna orkunotkun á m2 og hvaða einkunn húsnæði þitt fær með tilliti til orkunotkunar til upphitunar.  Kerfið er einkum hugsað fyrir íbúðir með rafhitun enda er orkukostnaður hjá þeim hópi mun meiri en annarra

Orkueinkunnina má finna á vef orkuseturs