Fréttir


Styrkveitingar úr þróunarsjóði EFTA til uppbyggingar hitaveitna í Ungverjalandi

6.2.2014

Opnað verður fyrir umsóknir um styrki til hitaveituuppbyggingar í Ungverjalandi þann 10. febrúar næstkomandi. Umsóknarfrestur er til 7. apríl 2014.

Orkustofnun hefur undirbúið áætlunina undanfarin tvö ár í samstarfi við fulltrúa ungverska ríkisins og Þróunarsjóðs EFTA. Með áætluninni geta ungverskir aðilar sótt í 1,5 milljarð króna til að styðja við orkunotkun endurnýjanlegra orkugjafa með 15% framlagi ungverska ríkisins. Til þess að styðja sérstaklega við tengslamyndun og undirbúning umsókna verður boðið upp á styrki sem samtals geta numið 1,5% af áætluninni.

Í Ungverjalandi fer fjórðungur af allri orkunotkun í húshitun og húskælingu. Fjarvarmaveitur sinna um fimmtung þeirrar eftirspurnar með yfir 110 fjarvarmaveitum sem nýta jarðefnaeldsneyti. Áætluninni er ætlað að draga athygli að þeirri staðreynd að víða er að finna jarðhitasvæði nálægt þeim fjarvarmaveitum sem fyrir eru. Því er hægt að nýta þá fjárfestingu sem fyrir er með nýtingu jarðhita í stað jarðefnaeldsneytis og þannig draga með áhrifaríkum hætti úr gaslosun og loftmengun og jafnframt auka við orkusjálfstæði og orkujafnræði Ungverjalands.

Sveitarfélög jafnt sem einkafyrirtæki geta sótt um styrk en mótframlag er háð eignarhaldi, landsvæði og einnig væntanlegum tekjum af vatnssölu. Styrkurinn getur því einvörðungu numið þeirri upphæð sem upp á vantar til að tryggja nægja arðsemi þannig að fjárfestingin teljist arðbær fyrir eigandann.

Mótframlag umsækjenda verður á bilinu 15% til 90% og því má búast við að fjárfestingar á þessu sviði verði hærra. Þar að auki eru gerðar miklar kröfur til umsókna þannig að umsækjandinn þarf þá þegar að hafa lagt í talsverðan kostnað við undirbúning.

Árangur hitaveitnanna verður mældur út frá aukningu í vinnslu jarðhita og orkunotkunar og þeirri lækkun sem næst í losun koldíoxíðs. Þess verður krafist að vökvanum verði komið aftur niður í jarðhitakerfið að stærstum hluta.

Frekari upplýsingar um styrkinn og umsóknarferlið má finna hér og eldri frétt um málið er hér.