Orkustofnun veitir nýtingarleyfi á sjóblönduðu grunnvatni í Grindavíkurbæ
Orkustofnun veitti í dag IceAq ehf. nýtingarleyfi á allt að 2000 l/s af sjóblönduðu vatni úr borholum við fyrirhugaða fiskeldisstöð félagsins. Stöðin er staðsett á iðnaðarsvæði í landi Húsatófta, Grindavíkurbæ.
Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Grindavíkurbæjar í samræmi við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Að auki var í samræmi við stjórnsýslulög leitað umsagnar til fjármála- og efnahagsmálaráðuneytisins fyrir hönd íslenska ríkisins og landeiganda jarðarinnar Húsatóftar.
Leyfið gildir frá 28. janúar 2014 til 27. janúar 2044.
Frekari upplýsingar eru í leyfinu og fylgiskjölum.