Orkustofnun veitir þriðja sérleyfið á Drekasvæðinu
Orkumálastjóri, Guðni A. Jóhannesson hefur í dag, að viðstöddum þeim Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Marit Lillealtern, fulltrúa sendiráðs Noregs og Ma Jisheng, sendiherra Alþýðulýðveldisins Kína, gefið út þriðja sérleyfið fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu.
Leyfið er til CNOOC Iceland ehf. sem rekstraraðila með 60 % hlut, Eykon Energy ehf., með 15 % hlut og Petoro Iceland AS með 25 % hlut.
CNOOC Iceland ehf. er dótturfélag CNOOC International Ltd. Eykon Energy ehf. er dótturfélag Eykon AS í Noregi. Petoro Iceland AS, útibú á Íslandi, er leyfishafi fyrir hönd norska ríkisins samkvæmt ákvörðun norska stórþingsins frá 16. desember sl., til samræmis við samninginn milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen og bókun við áðurnefndan samning dags. 3. nóvember 2008 varðandi þátttökurétt skv. 5. og 6. gr. samningsins. Petoro Iceland AS, útibú á Íslandi, undirgengst allar kvaðir og skyldur norska ríkisins samkvæmt leyfinu og sem aðili að samstarfssamningnum um framkvæmd leyfisins.
Leyfið er veitt með vísan til ákvæða laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með síðari breytingum, reglugerð nr. 884/2011, ásamt upplýsingum í sérleyfisumsókn og öðrum upplýsingum frá umsækjendum.
Orkustofnun leitaði umsagna umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í samræmi við ákvæði þágildandi laga og mat þær umsagnir með tilliti til umsóknarinnar og þeirrar rannsóknaráætlunar sem þar um ræðir, en hún tekur til 12 ára. Stofnunin kannaði ítarlega tæknilega og jarðfræðilega getu umsækjenda til að takast á við þá umfangsmiklu starfsemi sem í leyfisveitingunni felst. Þá kannaði Orkustofnun fjárhagslega getu móðurfyrirtækja umsækjenda svo tryggt verði að umsækjendur hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna verkefninu til lengri tíma og til að gæta viðhlítandi umhverfis- og öryggisþátta. Með þessari þriðju leyfisveitingu Orkustofnunar er úthlutun leyfa lokið samkvæmt öðru útboði sérleyfa á Drekasvæðinu en umsóknarfrestur var til 2. apríl 2012.
Kort af leyfum
Grænt: CNOOC Iceland ehf., Eykon Energy ehf. og Petoro Iceland AS.
Blátt: Ithaca Petroleum ehf., Kolvetni ehf. og Petoro Iceland AS.
Rautt: Faroe Petroleum Norge AS, Íslenskt kolvetni ehf. og Petoro Iceland AS.
Á vef OS