Fréttir


Tillögur orkufyrirtækja um virkjunarkosti í þriðja áfanga Rammaáætlunar

21.1.2014

Fyrir liggja tillögur til Orkustofnunar frá orkufyrirtækjum um að 41 virkjunarkostur úr öðrum áfanga Rammaáætlunar verði lagður fyrir verkefnisstjórn til meðferðar í þriðja áfanga. Auk þess eru gerðar tillögur um einn nýjan virkjunarkost í vatnsorku og tvo í vindorku.

Orkustofnun vinnur nú að yfirferð um fleiri virkjunarkosti sem koma til greina, og verða tillögurnar í heild lagðar fyrir verkefnisstjórn 3. áfanga í mars nk.

Úr núverandi orkunýtingarflokki, skv. ályktun Alþingis í kjölfar 2. áfanga Rammaáætlunar, eru gerðar tillögur um framhald þeirra allra í 3. áfanga, að undantekinni stækkun Reykjanesvirkjunar og tveimur áföngum Þeistareykjavirkjunar, sem ýmist hafa þegar eða eru um þessar mundir í umsóknarferli á virkjunar- og nýtingarleyfum. Um er að ræða Hvalárvirkjun og Blönduveitu í vatnsafli en í háhita Stóru-Sandvík, Eldvörp, Sandfell, Sveifluháls, Meitilinn, Gráuhnjúka, Hverahlíð, Bjarnarflag og þrjá áfanga í Kröflu.

Í biðflokki eru gerðar tillögur um framhald á Glámuvirkjun, Skatastaðavirkjun B, Skatastaðavirkjun C, Fljótshnúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjun A, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Búlandsvirkjun, Hólmsárvirkjun við Einhyrning án miðlunar, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, Skrokkölduvirkjun, Hagavatnsvirkjun og Búðartunguvirkjun í  vatnsafli, en í háhita er um að ræða tillögur um virkjunarkostina Trölladyngju, Austurengjar, Innstadal, Þverárdal, Ölfusdal, 1. og 2. áfanga Hágönguvirkjunar og Fremrináma.

Úr núverandi verndarflokki eru gerðar tillögur um framhald á Hólmsárvirkjun við Einhyrning með miðlun, Tungnaárlón, Bjallavirkjun og Norðlingaölduveitu í vatnsafli en í háhita um Grændal og Gjástykki.

Nýr virkjunarkostur í vatnsorku er Stóra-Laxá og í vindorku eru gerðar tillögur um vindmyllulundi á Þjórsár-Tungnaársvæði og á Blöndusvæði.

Orkustofnun þarf nú að taka afstöðu til þess, hvort fleiri virkjunarkostir úr 2. áfanga verða lagðir fyrir verkefnisstjórn til frekari meðferðar í næsta áfanga, auk þess sem vel kemur til greina að taka inn nýja kosti í vatnsorku, sjóðandi lághita eða vindorku.

Ekki liggja enn fyrir reglugerðir skv. lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og því er ekki fullkomlega ljóst á þessari stundu hvaða kröfur þarf að gera til lýsingar á virkjunarkostum svo þeir fái viðeigandi meðferð hjá verkefnisstjórn í 3. áfanga. Enn er því nokkur vinna framundan hjá Orkustofnun af þessu tilefni, en fyrirhugað er að a.m.k. því sem fyrir liggur verði skilað til verkefnisstjórnar í mars nk.