Fréttir


Tillögur um frekari styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum

13.1.2014

Í Skýrslu starfshóps um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum voru kynntar tillögur um frekari styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og gefið yfirlit um þær aðgerðir sem hópurinn vinnur að.

Á fundi ríkisstjórnarinnar síðastliðinn föstudag kynnti Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra orkumála skýrslu samstarfshóps um raforkumálefni á Vestfjörðum.

Helstu tillögur nefndarinnar:

  • Samræma vegagerð og strenglagnir vegna raforkuflutnings og dreifingar. 
  • Skipuleg  vinna  með  afrennsliskort  til  þess  að  greina  möguleika  á  minni  og  stærri
    vatnsaflskostum. 
  • Ef Glámuvirkjun fer ekki í nýtingarflokk í rammaáætlun þá er lagt til skoðun á minni og öðruvísi virkjanakostum á Glámu hálendinu. 
  • Skoða þarf að setja löggjöf sem kveður á um skyldu um myndun vatnsnýtingarfélags á hverju einstöku vatnasvæði. Þannig er komið í veg fyrir að litlir eigendur geti stöðvað virkjanaframkvæmdir.   
  • Efnahagsleg og félagsleg greining á þýðingu jarðhita fyrir minni byggðarlög. 
  • Kanna þarf leiðir til þess að greiða niður eignastofn vegna dreifingar raforku í dreifbýli.
  • Skoða betur möguleika á uppsetningu lághitavirkjana á svæðum sem eru með yfir 100°C hita. 
  • Frekari kortlagning á jarðhitakostum á Vestfjörðum. 

Í skýrslunni er jafnframt greint frá yfirstandandi framkvæmdum til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis raforku á Vestfjörðum. Þá hefur ýmis greiningarvinna verið í gangi þar sem skoðaðar eru mögulegar aðgerðir til frekari styrkingar raforkukerfisins á Vestfjörðum ásamt fleiri tillögum. Þjónustukönnun var framkvæmd á meðal raforkunotenda á Vestfjörðum í lok október 2013 og eru niðurstöðurnar birtar í skýrslunni.

Samstarfshópurinn er skipaður af heimamönnum, raforkufyrirtækjum og Orkustofnun. Árið 2009 skipaði þáverandi iðnaðarráðherra ráðgjafarhóp til þess að meta leiðir til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og skilaði hópurinn niðurstöðum sínum í febrúar 2011.  Í skýrslunni voru lagðar til ýmsar aðgerðir til að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum.  Til að fylgja eftir þeim tillögum sem fram komu í skýrslunni var ákveðið að koma á föstum samstarfshópi sem hefði eftirfarandi verkefni:

  • að afla reglulega upplýsinga um þróun afhendingaröryggis og gæði raforku og uppsetts afls á Vestfjörðum,
  • að fara yfir áætlanir flutnings- og dreififyrirtækja varðandi uppbyggingu og endurbætur á raforkukerfinu,
  • að fylgjast með áætlanagerð Landsnets vegna mögulegrar styrkingar Vesturlínu og hringtenginga raforkuflutnings fyrir Vestfirði,
  • hafa frumkvæði að því að á næstu 4 árum verði gerð rammaáætlun fyrir raforkuframleiðslu og raforkuflutning á Vestfjörðum sem nái til minni og stærri virkjanakosta.

 Skýrsla samstarfshópsins