Fréttir


Orkustofnun veitir Landsvirkjun leyfi til breytingar á vatnsfarvegi

20.12.2013

Orkustofnun hefur í dag veitt Landsvirkjun leyfi til breytingar á vatnsfarvegi Lagarfljóts og Jöklu við ós Héraðsflóa í Fljótsdalshéraði

 

Í umsókn Landsvirkjunar kemur fram að frá því að rekstur Kárahnjúkavirkjunar hófst hefur ósinn færst um 1,3 km til norðurs. Ósinn er nú um 3,2 km norðar en oftast á liðinni öld.  Orsökin fyrir færslu óssins er ekki þekkt.

Markmið framkvæmdanna er að draga úr líkum á því að vatn úr Lagarfljóti og Jöklu brjóti sér leið yfir í Fögruhlíðará. Um er að ræða um það bil 200 metra langan og 10 metra breiðan skurð í gegnum fjörukambinn. Botn skurðarins nær um einn metra niður fyrir meðalsjávarhæð og er gert ráð fyrir að árvatnið grafi síðan nýja ósinn út samhliða því sem brim loki núverandi ósi.

Álit Skipulagsstofnunar barst þann 19. desember en þar kemur fram að fyrirhuguð færsla óss Lagarfljóts og Jöklu í Héraðsflóa sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Orkustofnun fer með stjórnsýslu vatnalaga og er leyfisveitandi. Samkvæmt lögum er þó heimilt að binda leyfið skilyrðum sem þykja nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Því er meðal annars nauðsynlegt að afstaða Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og eftir atvikum Fiskistofu áður en til leyfisveitingarinnar kemur. Afstað þeirra liggur fyrir og er jákvæð.

Frekari upplýsingar má finna í leyfinu.