Fréttir


Engin ummerki um jarðgas eða jarðolíu á Skjálfandaflóa

13.12.2013

Orkustofnun hefur fengið niðurstöður úr greiningum á kjarnasýnum úr Skjálfandaflóa sem gerðar voru á rannsóknarstofu í Noregi. Niðurstöðurnar voru skýrar, engin ummerki um jarðgas eða jarðolíu greindust í sýnunum.

Kjörnum var safnað af þremur svæðum í Skjálfandanum. Á myndinni hér að neðan má sjá svæðin merkt A. B og C.  Á svæði C, rétt utan Húsavíkur, var staðfest að gas væri að finna í setinu eins og hafði sést í fyrirliggjandi gögnum, en um var að ræða metan-gas myndað við rotnun á lífrænum leifum í setinu, ekki hitaummyndað gas (jarðgas). Á svæðum A og B fannst ekkert gas, ekki einu sinni metan.

Mynd 5 úr yfirlitsskýrslu Bjarna Richters og Karls Gunnarssonar frá 2010 um stöðu rannsókna á Gammsvæðinu. Svæðum forgangsraðað með líkur á tilvist gass í setinu í huga. 

Það er því ljóst að ekki eru líkur á því að jarðgas sé að finna í Skjálfandanum, en ekki er enn vitað hvernig holurnar sem sjást greinilega á hafsbotninum mynduðust á svæði A á kortinu. Aðrir möguleikar en gasflæði sem gætu leitt til myndunar á holunum væru uppstreymi jarðhitavatns eða grunnvatns. Orkustofnun mun leitast eftir að nýta sýnin sem safnað var í haust til að greina þar á milli með litlum tilkostnaði.

Þar sem sýnt hefur verið fram á tilvist hitaummyndaðs gass í Öxarfirði þá stefnir Orkustofnun að því að snúa sér næst að Öxarfirðinum og áætla mögulegt  hámarksflatarmál auðlindarinnar en þar er um mun minna svæði að ræða en hefði verið undir ef jarðgas hefði einnig fundist í Skjálfandanum. Niðurstöður rannsókna í Skjálfandanum verða birtar í fagtímaritum.

Nánari upplýsingar um aðdraganda sýnatökunnar og forsendur fyrir henni er að finna í skýrslu eftir Bjarna Richter og Karl Gunnarsson hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) frá 2010 (á ensku, með útdrátt á íslensku).

Eldri frétt um málið