Fréttir


Ungverjar sækja í þekkingarbrunn Íslendinga á sviði jarðhita

4.12.2013

Ungverjum er boðið að sækja sér menntun á Íslandi til eflingar á þekkingu og almannavitund á sviði endurnýjanlegrar orku.

Á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af opnun á styrkveitingum úr þróunarsjóði EFTA í Ungverjalandi voru fulltrúar þriggja menntastofnana, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Halla Hrund Logadóttir framkvæmdastjóri Íslenska orkuskólans við Háskólann í Reykjavík sagði “Það eru mikil tækifæri í jarðvarma í Ungverjalandi og sterkir háskólar á því sviði. Þessir styrkir gefa okkur færi á að miðla menntun og reynslu til ungverskra nemenda og stofna til verðmætra samskipta.”

Brynhildur Davíðsdóttir hjá Háskóla Íslands tók undir þau orð og sagði þetta vera gríðarlega spennandi tækifæri fyrir bæði rannsóknir og kennslu í endurnýjanlegri orku.

Þetta er í fyrsta sinn sem Jarðhitskólinn tekur á móti nemendum frá Ungverjalandi en á vegum Þróunarsjóðsins munu átta nemendur fara í gegnum sex mánaða nám á árunum 2014 og 2015, upplýsti Lúðvík S. Georgsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Styrkirnir eru mikilvægir fyrir Ungverjaland en þar er verið að leita leiða til að lækka orkukostnað og því mikilvægt að skoða jarðhitann í því samhengi, sagði Attila Imre Horváth, ráðherra þróunarmála í Ungverjalandi. Jafnframt benti hann á að þekkingin sem kemur bæði frá Íslandi, Lichtenstein og Noregi geti haft mjög jákvæð áhrif annars staðar í Evrópu.