Fréttir


Utanríkisráðherra setur orkuáætlun í Búdapest í dag

2.12.2013

Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, telur opnun orkuáætlunar Þróunarsjóðs EFTA í dag marka straumhvörf í auknu samstarfi Íslands og Ungverjalands á sviði jarðhita næstu árin. Í fylgd ráðherra er um 20 manna íslensk sendinefnd til að koma á samstarfi ríkjanna.

Orkustofnun hefur undirbúið áætlunina undanfarin tvö ár í samstarfi við fulltrúa ungverska ríkisins og Þróunarsjóðs EFTA. Með áætluninni geta ungverskir aðilar sótt í 1,5 miljarð króna til að styðja við orkunotkun endurnýjanlegra orkugjafa með 15% framlagi ungverska ríkisins. Til þess að styðja sérstaklega við tengslamyndun og undirbúning umsókna verður boðið upp á styrki sem samtals geta numið 1,5% af áætluninni.

Á myndinn eru frá hægri: Guðni A. Jóhannesson orkumálatjóri, Tove Skarstein sendiherra Noregs í Ungverjalandi, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Attila Imre Horváth þróunarmálaráðherra, Zoltán Körtvély forstjóri NKEK.

Eftir að áætlunin hefur nú formlega verið sett af stað þá mun Orkustofnun fylgja áætluninni eftir í samstarfi við fulltrúa ungverska ríkisins með það að markmiði að markmiðum áætlunarinnar verði náð og þá einnig markmiðum sjóðsins að efla tvíhliðasamstarf og að draga úr samfélaglegum og efnahagslegum ójöfnuði.

Einn milljarður í hitaveituppbyggingu til 2016

Í Ungverjalandi fer fjórðungur af allri orkunotkun í húshitun og húskælingu. Fjarvarmaveitur sinna um fimmtung þeirrar eftirspurnar með yfir 110 fjarvarmaveitum sem nýta jarðefnaeldsneyti. Áætluninni er ætlað að draga athygli að þeirri staðreynd að víða er að finna jarðhitasvæði nálægt þeim fjarvarmaveitum sem fyrir eru. Því er hægt að nýta þá fjárfestingu sem fyrir er með nýtingu jarðhita í stað jarðefnaeldsneytis og þannig draga með áhrifaríkum hætti úr gaslosun og loftmengun og jafnframt auka við orkusjálfstæði og orkujafnræði Ungverjalands með því að nýta jarðhita rétt eins og Orkustofnun fyrir hönd íslenska ríkisins lagði áherslu á með Orkusjóði á áttunda áratug síðustu aldar. Árið 1970 var um helmingur heimila á Íslandi að nýta olíu til húshitunar en með markvissu og stefnumiðaðri áætlun tókst Íslandi að stórefla nýtingu jarðhita þannig að í dag er nær allt húsnæði hitað með orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Opnað verður á umsóknir um hitaveituuppbyggingu í janúar 2014 en drög að kallinu má nálgast hér. Mótframlag umsækjenda verður á bilinu 15% til 90% og því má búast við að fjárfestingar á þessu sviði verði hærra. Þar að auki eru gerðar miklar kröfur til umsókna þannig að umsækjandinn þarf þá þegar að hafa lagt í talsverðan kostnað við undirbúning. Sveitarfélög jafnt sem einkafyrirtæki geta sótt um styrk en mótframlag er háð eignarhaldi, landsvæði og einnig væntanlegum tekjum af vatnssölu. Styrkurinn getur því einvörðungu numið þeirri upphæð sem upp á vantar til að tryggja nægja arðsemi þannig að fjárfestingin teljist arðbær fyrir eigandann.

Árangur hitaveitnanna verður mæld út frá aukningu í vinnslu jarðhita og orkunotkunar og þeirri lækkun sem næst í losun koldíoxíðs. Þess verður krafist að vökvanum verði komið aftur niður í jarðhitakerfið að stærstum hluta.

Efling almannavitundar á sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa

            Áætluninni er ætlað að efla vitund almennings á sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Hafa skal hugfast að hugtökunum skjálfbærni og endurnýjanleiki er oft ruglað saman en hér vísar endurnýjanleiki til eðli auðlindar en sjálfbærni til þess með hvaða hætti auðlindin er nýtt í stærra samhengi. Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkugjafa vísar þá til þess með hvaða hætti verið er að nýta endurnýjanlega orkugjafan. Til þess að leggja mat á þá ólíku þætti sem spila þar inn í þá þarf að skilgreina sérstök markmið. Síðan er reynt að leggja mat á núverandi stöðu með sérstökum vísum sem ætlað er að leggja ákveðinn mælikvarða á þau markmið sem sett hafa verið.

Samtals er hægt að sækja í um 120 milljónir króna innan þessa þáttar. Hver umsókn getur að hámarki numið um 20 milljónum króna og því er gert ráð fyrir að sex verkefni verði styrkt á vegum sjóðsins. Ekki er krafist mótframlags frá umsækjanda.

Verkefnin munu því skilgreina markmið, vísa að markmiðum og leggja mat á núverandi stöðu. Niðurstaðan skal svo kynnt almenningi. Árangur verkefnisins verður að hluta til mældur út frá því hversu vel tekst til að efla vitund almennings.

Framhaldsmenntun á sviði endurnýjanlegrar orku

            Ungverjum verður boðið upp á samtals 120 milljónir króna til að sækja sér framhaldsmenntunar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi, í Noregi eða Lichtenstein. Samtals er gert ráð fyrir að átta nemendur útskrifist með meistaragráðu og að 80 einstaklingar hafi sótt styttri sérhæfð námskeið eða ráðstefnur á þessu sviði. Hámarksstyrkur getur numið nálægt 5 milljónum króna og er ekki krafist mótframlags.

Ungverjum boðið í Jarðhitaskólann

            Ungverskum stofnunum verður boðið að senda átta nemendur í Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna.  Gert er ráð fyrir að fjórir ungverjar komi til Íslands árið 2014 og fjórir árið 2015 í sex mánaða nám skólans.  Forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna Lúðvík Georgsson sagði það mikilvægt fyrir áframhaldandi uppbyggingu á jarðhita í Ungverjalandi að fólk sæki sér menntun.

            Til þess að styðja við samtengingu æðri menntunar og hitaveituuppbyggingar sem Þróunarsjóðurinn mun styrkja þá þarf hitaveitan að skilgreina sérstök rannsóknarverkefni tengdu því svæði sem um ræðir þannig að nemendur geti nýtt sér þær rannsóknir sem þegar hafa verið unnar til þess að skrifa sérfræðigrein á viðkomandi sviði sem hluta af námi Jarðhitaskólans eða annarra menntastofnanna á sviði jarðhita sem ungverskir nemendur hyggjast sækja.