Fréttir


Vænta mikils af samstarfi um jarðhita- og vatnsaflsverkefni í Rúmeníu

29.11.2013

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, telur að styrkveitingar Þróunarsjóðs EFTA í Rúmeníu verði til þess að efla samstarf við íslensk ráðgjafafyrirtæki á sviði jarðvarma og vatnsafls. Þetta kom fram í ræðu ráðherra í Búkarest í vikunni við formlega kynningu samstarfsins.

 

Fram kom í ræðu ráðherra, íslensku og norsku sendinefndanna sem og fulltrúa Rúmeníu að miklar vonir eru bundndar við samstarf landanna á sviði jarðhita og vatnsafls. Orkustofnun mun áfram veita Rúmenska ríkinu ráðgjöf við að stýra RONDINE áætluninni næstu árin og aðstoða íslenska aðila við að taka þátt í undirbúningi umsókna og er gert ráð fyrir að rúmenskum sveitarfélögum verði boðið að koma til Íslands til að kynna sér hitaveituuppbyggingu hér á landi í byrjun næsta árs.

Í fylgd ráðherra var íslensk sendinefnd á vegum Orkustofnunar með fulltrúum stærstu ráðgjafafyrirtækja á þessu sviði. Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits, telur mikilvægt fyrir Ísland að nýta þau tækifæri sem leynast í þeim sjóðum sem íslenska ríkið styrkir en Mannvit hefur komið að allmörgum verkefnum á þessu svæði undanfarin ár. Eyjólfur segir mörg tækifæri bíða fyrir íslenska þekkingu.  

Árni Gunnarsson hjá Landsvirkjun Power hefur komið að hitaveituuppbyggingu í Oradea í Rúmeníu í gegnum dótturfyrirtæki Landsvirkjunar IGC (Iceland Geothermal Consulting). Fyrirtækið hefur veit hitaveitum í borgunum Oradea og Beius í vesturhluta landsins ráfgjöf varðandi virkjun lághita borhola þar sem aðstæður eru svipaðar og hjá íslenskum jarðhitaveitum.

Rúnar Magnússon hjá verkfræðistofunni Eflu lagði áherslu á breiða þekkingu verkfræðistofunnar á sviði orkunýtingar sem sjóðurinn kallar sérstaklega eftir og þá sérstaklega endurnýjunar í vatnsaflsvirkjunum og dreifiveitur sem nýta jarðhita.

Orkustofnun hefur unnið að undirbúning áætlunarinnar RONDINE sem var formlega sett í Búkarest í gær undanfarin tvö ár að beiðni utanríkisráðuneytisins. Við kynningu á samstarfsáætluninni sagði Paul Serbanesque, sem veitir Umhverfissjóði Rúmena forstöðu, að samvinna þeirra við Orkustofnun og systurstofnun hennar í Noregi, hafi reynst gjöfult. Það hafi styrkt nálgun og stefnu þeirra til næstu ára. Fram kom í ræðu hans að ákveðið hefur verið að 2 ,3 miljörðum króna verði varið í RONDINE af hálfu sjóðsins með 15%       mótframlagi frá rúmenska ríkinu.                                                       

Áætlunin skiptist jafnt milli vatnsafls og jarðvarma. Fyrir vatnsaflið er gert ráð fyrir 50% mótframlagi við endurnýjun á búnaði vatnsaflsvirkjana til að auka raforkuvinnslu þeirra frá því sem nú er. Hinn þáttur áætlunarinnar snýr að uppbyggingu hitaveitna með nýtingu á jarðhita þar sem fyrir er fjarvarmaveita. En í Rúmeníu eru yfir 100 fjarvarmaveitur sem nýta jarðefnaeldsneyti og þar af er stór hluti sem nýtir innflutt gas. Jónas Ketilsson hjá Orkustofnun lagði ríka áherslu á að Rúmenía gæti nýtt hér tækifæri sjóðsins að leita ráðgjafar íslenskra fagaðila á sviði jarðhita í að beisla jarðvarma til húshitunar. Fram kom í ræðu hans að markmið sjóðsins er tvíþættur, annarsvegar að efla tvíhliðasamstarf og hinsvegar að draga úr samfélags- og efnahagslegum ójöfnuði. Hvort tveggja er hægt að ná fram með uppbyggingu hitaveitna til bæta orkuöryggi, orkusjálfstæði og ekki síst til að draga úr losun koldíxíðs, til að bæta loftgæði og lækka kostnað neytenda við húshitun.

Fram kom í ræðu Gunnars Inga Gunnarssonar, stjórnarformanns Verkís, að vatnsaflsvirkanir í Rúmeníu eru komnar til ára sinna og mikil þörf á endurnýjun líkt og verið er að gera með elstu virkjanir á Íslandi.

Bjarni Richter hjá Íslenskum orkurannsóknum kom inn á víðtæka þekkingu fyrirtækisins á eðli jarðhitans og nýtingu og ekki síst uppbyggingu þekkingar í gegnum Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna en nokkrir Rúmenar hafa í gegnum tíðina farið í gegnum sex mánaða nám Jarðhitaskólans.

Næsta mánudag verður sambærileg áætlun sjóðsins sett í Búdapest í Ungverjalandi þar sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, mun ávarpa opnunina í fylgd með hátt á annan tug fulltrúa íslenskra háskóla og ráðgjafafyrirtækja ásamt Orkustofnun.


Mynd: Jónas Ketilsson hjá Orkustofnun, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Adrian Gearap forseti AFM við setningu RONDINE áætlunarinnar sem Þróunarsjóður EFTA (EEA Grants) styrkir ásamt rúmenska ríkinu.Vefsíða verkefnisins í Rúmeníu