Fréttir


Jarðhitaskólanum veitt verðlaun í El Salvador

21.11.2013

Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna voru veitt verðlaunin, Victor de Sola, þann 1. nóvember síðastliðinn.

Verðlaunin eru veitt á ári hverju þeim einstaklingum eða stofnunum sem hafa stutt við jarðhitaþróun í El Salvador og sérstaklega þeim sem þykja hafa bætt tæknilega og vísindalega getu orkufyrirtækisins LaGeo í El Salvador.

Afhending verðlaunanna fer fram við sérstaka athöfn innan LaGeo einu sinni á ári, en þau eru nefnd eftir einum af frumkvöðlum jarðhitarannsókna í El Salvador. Fulltrúi Jarðhitaskólans, Ingimar G. Haraldsson, tók á móti verðlaununum fyrir hönd skólans

Samstarfið milli Jarðhitaskólans og El Salvador á sér langa sögu sem nær aftur til 1978 þegar Gustavo Guéllar, jarðhitasérfræðingur frá El Salvador, sótti alþjóðlegt vinnuþing um þarfir þjálfunar í jarðhita sem var skipulagt af Orkustofnun og Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Á námskeiðinu var mælt með því að stofna Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og tók hann til starfa ári síðar. Fyrsti nemandinn frá El Salvador kom í 6 mánaða þjálfun til Íslands árið 1980 en síðan þá hefur skólinn útskrifað 36 nemendur frá El Salvador og þar af 30 sem vinna hjá LaGeo.

Frekari upplýsingar um skólann má finna á vefsíðunni www.unugtp.is .