Ferðastyrkir til Ungverjalands
Þróunarsjóður EFTA
Á vegum Þróunarsjóðs EFTA (EEA Grants) er nú hægt að fá ferðastyrk til Ungverjalands á opnun áætlunar á sviði endurnýjanlegrar orku þann 2. desember í Búdapest til að styrkja tvíhliða tengsl fyrirtækja og stofnana á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein við ungversk fyrirtæki og stofnanir.
Þar skapast tækifæri fyrir íslensk ráðgjafafyrirtæki á sviði jarðhita að kynnast ungverskum fyrirtækjum í þeim tilgangi að standa sameiginlega að umsóknum í áætlunina.
Umsóknareyðublað og frekari upplýsingar
Orkustofnun mun gegna mikilvægu hlutverki við þróun orkuáætlunar í Ungverjalandi í hlutverki Donor Programme Partner á öllum stigum áætlunarinnar með það að markmiði að efla hlut endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu með þjóðhagslega hagkvæmni hvers ríkis fyrir sig að leiðarljósi. Áætlað er að heildarfjárfesting geti numið vel yfir tvo milljarða króna í Ungverjalandi til fjögurra meginþátta:
Hitaveitur
Meginmarkmið orkuáætlunarinnar í Ungverjalandi er að styrkja uppbyggingu hitaveitna í landinu á þeim stöðum þar sem fjarvarmaveita er til staðar. Um 26% af heildarorkunotkun í Ungverjalandi er til húshitunar og húskælingar og þar eru starfræktar um 111 fjarvarmaveitur sem sinna um 17% af þeirri orkuþörf sem flestar eru kyntar með jarðefnaeldsneyti. Sjóðurinn áætlar að styrkja að lágmarki uppbyggingu tveggja hitaveitna í Ungverjalandi.
Efling almannavitundar um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda
Sjóðurinn mun styrkja sérstök átaksverkefni til að efla almannavitund um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda.
Meistaranám á sviði endurnýjanlegra orkufræða
Í boði eru átta styrkir til framhaldsnáms á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein á sviði endurnýjanlegra orkufræða. Þar að auki er einnig hægt að sækja um að taka þátt í styttri námskeiðum og ráðstefnum.
Framhaldsmenntun á sviði jarðhita
Á vegum Þróunarsjóðsins munu átta nemendur fara í gegnum sex mánaða nám Jarðhitaskólans á árunum 2014 og 2015.
Frekari upplýsingar veitir Jónas Ketilsson jonas.ketilsson@os.is.