Fréttir


Lagt til að sektarákvæðum vegna laga um endurnýjanlegt eldsneyti verði frestað um eitt ár

8.11.2013

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur til að sektarákvæðum laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum, verði frestað um eitt ár.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur í kjölfar athugasemda frá hluta af söluaðilum eldsneytis lagt til að sektarákvæðum laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum verði frestað um eitt ár. Eftir sem áður munu lögin taka gildi um næstu áramót en í þeim er lögð sú skylda á söluaðila eldsneytis hér á landi að minnst 3,5% orkusölunnar verði af endurnýjanlegum uppruna frá og með árinu 2014.

Á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir einnig að með lengri aðlögunartíma gefist færi á að leysa þau tæknilegu vandamál sem kunna að koma upp og tryggja að söluaðilar eldsneytis lendi ekki í vandræðum við að uppfylla skilyrði laganna á réttum tíma.