Fréttir


Aðild norska ríkisins að nýju leyfi Orkustofnunar til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu

16.10.2013

Orkustofnun hefur í dag sent ríkisstjórn Noregs drög að leyfi kínverska ríkisolíufélagsins CNOOC International Ltd (skráðs félags á Íslandi) og Eykon Energy ehf. og óskað eftir formlegri afstöðu norska ríkisins til þátttöku í leyfinu. Norska ríkinu stendur til boða 25% þátttaka í umræddu leyfi á svæði sem er 6.227 ferkílómetrar að stærð. Norðmenn hafa 30 daga til þess að svara erindinu.

Orkustofnun hefur lokið úrvinnslu á þriðju leyfisumsókn vegna útboðs sérleyfa á Drekasvæðinu sem lauk í apríl 2012, þ.e. umsókn Eykon Energy ehf. og kínverska ríkisolíufélagsins CNOOC International Ltd. Orkustofnun hafði veitt Eykon Energy ehf. frest til að afla sér samstarfsaðila um mögulega leyfisveitingu, sem hefði yfir að ráða tæknilegri, jarðfræðilegri og fjárhagslegri getu með Eykon Energy ehf. til að takast á við þá umfangsmiklu starfsemi sem í leyfisveitingunni felst. Orkustofnun samþykkti CNOOC International Ltd sem samstarfsaðila og meðumsækjenda Eykon Energy ehf. að umræddri leyfisumsókn og kannaði tæknilega og fjárhagslega getu móðurfyrirtækja umsækjenda svo tryggt yrði að umsækjendur hefðu sameiginlega tæknilegt og fjárhagslegt bolmagn til að sinna verkefninu til lengri tíma og gerði umsækjendum grein fyrir skilmálum leyfisins. Við úrvinnslu Orkustofnunar lágu fyrir lögboðnar umsagnir umhverfisráðuneytis og sjárvarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis [nú umhverfis og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis].

Umsækjendur hafa fengið drög að leyfinu til skoðunar og fallist á þau og skilmála leyfisins.

Samkvæmt samningi Íslands og Noregs á norska ríkið rétt á að gerast aðili að sérleyfum á Drekasvæðinu að hluta, kjósi það svo. Orkustofnun hefur þess vegna sent ríkisstjórn Noregs umrædd drög að leyfi CNOOC International Ltd. (skráðs félags á Íslandi) og Eykon Energy ehf. og óskað eftir formlegri afstöðu til þátttöku norska ríkisins í leyfinu. Norðmenn hafa 30 daga til þess að svara erindinu um þátttöku þeirra í leyfinu. Hafni Noregur þátttöku í leyfinu, verður það gefið út til CNOOC International Ltd (skráðs félags á Íslandi) og Eykon Energy ehf. saman, að liðnum 30 daga frestinum.