Fréttir


Vel heppnuð sýnataka af hafsbotni á Skjálfandaflóa

15.10.2013

Orkustofnun stóð nýverið að söfnun kjarnasýna á Skjálfanda í leit að ummerkjum um jarðgas.

Sýnasöfnunin fór fram í tveimur atrennum, fyrst 9. til 11. september en þá þurfti frá að hverfa vegna öldugangs og hvassviðris. Sýnasöfnun var síðan lokið 30. september til 2. október þegar veðuraðstæður voru aftur heppilegar. Verktakinn sem annaðist borunina var Djúptækni ehf en fyrirtækið á og rekur skjálftabor sem var nauðsynlegur til að hægt væri að bora í hin þéttu setlög sem er að finna á borstöðunum, en slíkur bor borar sig niður í setið með titringi. Árið 2003 var reynt að safna kjörnum á þessu svæði með fallbor sem byggir á frjálsu falli kjarnabors ofan í setið, en ekki náðust nægilega langir kjarnar með þeirri aðferð.Kjarnasýni í Skjálfandaflóa september-október 2013 (rauðar stjörnur). Gulir hringir tákna staðsetningar á holum í yfirborðsseti sem geta stafað af uppstreymi gass út úr jarðlögunum. Kort frá Sigríði Magnúsdóttur við HÍ.

Bryndís Brandsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir við Háskóla Íslands völdu sýnatökustaðina, út frá fyrirliggjandi gögnum úr Skjálfandaflóa. Við þá vinnu byggðu þær m.a. á meistararitgerð Sigríðar sem hún varði í sumar. Borað var á nokkrum mismunandi svæðum s.s. þar sem holur sjást á hafsbotni sem eru vísbendingar um uppstreymi úr setinu, á og í nágrenni við Húsavíkur-Flateyjar sniðgengin og nær Húsavík þar sem ummerki um gas í setinu sjást í gögnunum. Fjarstýrður kafbátur Djúptækni var notaður til að kvikmynda hafsbotninn á borstöðum sem hluti af undirbúningi fyrir borun m.a. til að skoða holurnar á botninum.

Í sýnatökunni núna í haust tókst að safna 20 kjörnum eins og stefnt var að, en neðsti hluti kjarnanna var settur í málmdósir sem sendar voru til Noregs til greininga á gasinnihaldi. Lengsti kjarninn sem náðist var tæpir 4 m en sá stysti var 50 cm, en sá var of stuttur til að vænlegt væri að senda hann til greininga. Hinir voru allir nægilega langir.

Markmiðið með sýnasöfnuninni var að staðfesta tilvist jarðgass í setinu, en ýmsar vísbendingar eru fyrir hendi sem benda til gas sé að finna í jarðlögum á Skjálfanda. Ekki er ljóst um hvers konar gas sé að ræða, hvort um sé að ræða lífrænt gas sem myndist við rotnun á lífrænum leifum í setinu, eða hvort gasið sé hitaummyndað gas sem rekja megi til jarðlaga sem eru rík af lífrænum efnum og hafa hitnað nægilega mikið til að mynda jarðgas sem smitast upp í efri lög setsins. Nánari upplýsingar um aðdraganda sýnatökunnar og forsendur fyrir henni er að finna í skýrslu eftir Bjarna Richter og Karl Gunnarsson hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) frá 2010 (á ensku, með útdrátt á íslensku). Vænta má niðurstaðna greininga á sýnunum innan þriggja mánaða.