Fréttir


Auglýsing frá Orkustofnun

1.10.2013

Verkefnisstjórn verndar- og orkunýtingaráætlunar (Rammaáætlunar) fjallar um virkjunarkosti og þau landsvæði sem viðkomandi virkjunarkostir hafa áhrif á að hennar mati. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um verndar og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, leggur Orkustofnun til þá virkjunarkosti sem verkefnisstjórnin fjallar um. Rammaáætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn fjallar um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira.
 
Orkustofnun auglýsir hér með eftir því að lögaðilar, sem hafa áhuga á að virkjunarkostir verði teknir til meðferðar hjá verkefnisstjórn Rammaáætlunar, óski eftir því við stofnunina. Á það einnig við um þá kosti sem þegar hefur verið fjallað um svo og óháð því í hvaða flokk þeir voru settir við lok annars áfanga áætlunarinnar, að því undanskildu að komið hafi til friðlýsingar í samræmi við 50. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og ekki sé tiltekið í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar.
 

Beiðni um slíka umfjöllun skal send Orkustofnun eigi síðar en 1. nóvember 2013 eigi hún örugglega að koma til afgreiðslu í 3. áfanga Rammaáætlunar. Með beiðninni skal eftir atvikum fylgja lýsing á fyrirhugaðri virkjun, áætluðum virkjunarstað, helstu mannvirkjum og öðrum framkvæmdum sem henni tengjast og eftir því sem kostur er áætlun um afl og orkugetu og stofn- og rekstrarkostnað virkjunar, eða tilvísun til slíkrar lýsingar sem fengið hefur umfjöllun í fyrri áföngum Rammaáætlunar.

Ef virkjunarkostur er að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn fá hann til umfjöllunar. Orkustofnun getur einnig að eigin frumkvæði falið verkefnisstjórn að fjalla um virkjunarkosti.

Reykjavík, 1. október 2013

orkumálastjóri