Fréttir


Utanríkisráðherra heimsækir Orkustofnun

25.9.2013

Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, heimsótti Orkustofnun og Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna föstudaginn 20. september.

 

Orkumálastjóri, Guðni A. Jóhannesson, kynnti fyrir ráðherra starfsemi stofnunarinnar og fór sérstaklega yfir þau erlendu samskipti þar sem stofnunin og utanríkisráðuneytið koma sameiginlega að málum eins og til dæmis við olíuleit, hafréttarmál og aðstoð og samskipti við erlend ríki á sviði orkumála.

Ráðherra, orkumálastjóri og forstöðumaður jarðhitaskólans ræða við nemendur

Lúðvík Georgsson, nýr  forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi kynnti starfið, sem fram fer í skólanum. Jarðhitaskólinn, sem rekinn er sem sjálfstæð eining innan Orkustofnunar, hefur verið starfræktur undanfarin 34 ár eða samfleytt frá 1979. Starfsemi skólans hefur verið liður í þróunaraðstoð Íslendinga en þess er jafnan gætt að þeir nemendur sem koma hingað til lands geti farið aftur til heimalandanna og nýtt sér þar þá þekkingu sem þeir hafa öðlast hér á landi og sú hefur orðið raunin í lang flestum tilvikum.

Árlega koma 25-35 raunvísindamenn og verkfræðingar frá þróunarlöndunum til 6 mánaða sérhæfðrar þjálfunar í jarðhitafræðum og um tíu nemendur eru í meistaranámi og tveir í doktorsnámi í samvinnu við Háskóla Íslands. Skólinn heldur árleg námskeið um jarðhita í Afríku og Mið-Ameríku. Loks er samningsbundin þjálfun eða kennsla í þróunarlöndum vaxandi þáttur í starfsemi skólans.