Landsneti veitt leyfi til að reisa og reka raforkuflutningsvirki á Reyðarfirði
Vegna áætlana um að draga úr notkun olíu við vinnslu á fiskimjöli og aukningar raforkunotkunar sem því nemur á Austurlandi gerir Landsnet hf. ráð fyrir auknu álagi á svæðinu á næstu árum. Til að bregðast við þeirri álagsaukningu hefur Landsnet hf. áætlað að ráðast í styrkingar á kerfinu.
Leyfið tekur til spennuhækkunar á Stuðlalínu 1 og stækkunar á tengivirkinu að Stuðlum með uppsetningu á þremur 132kV rofareitum, einum 66 kV rofareit og tveimur 32 MVA spennum.
Framkvæmdirnar eru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum en Orkustofnun bendir á að þær framkvæmdir sem sótt er um leyfi fyrir eru háðar leyfi Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Sveitarfélagið Fjarðarbyggð hefur samþykkt fyrirhugaða stækkun tengivirkisins. Áður en framkvæmdir hefjast skulu önnur leyfi, sem lög kveða á um, liggja fyrir. Spennuhækkun á Stuðlum kemur fram sem sjálfstætt framkvæmdaverk í Kerfisáætlun Landsnets 2013. Áætlað er að reka verkefnið á árinu 2013.