Fréttir


Landsneti veitt leyfi til að styrkja flutningsvirki á Höfn í Hornafirði

13.8.2013

Orkustofnun veitti Landsneti leyfi, þann 12. júlí síðastliðinn, til að reisa nýtt flutningsvirki á Höfn í Hornafirði.

Leyfið tekur til nýs raforkuflutningsvirkis að Höfn í Hornafirði, lagningu nýs 132 kV jarðstrengs ásamt nýjum 132 kV rofareit með tilheyrandi rofabúnaði í tengivirki á Hólum.

Landsnet hyggst bæta við 132 kV afhendingarstað á Höfn í Hornafirði til þess að bregðast við aukinni raforkuþörf viðskiptavina RARIK á staðnum. Til að mynda eru fyrirliggjandi samningar við Skinney-Þinganes um allt að 15 MW ótrygga afhendingu á raforku til gufuframleiðslu í bræðslu þeirra.

Nauðsynlegt þykir að spennuhækka núverandi línu í tengslum við tengingu nýrrar aðveitustöðvar RARIK við flutningskerfið. Vegna þessa er sótt um leyfi fyrir nýjum 132 kV rofareit með tilheyrandi rofabúnaði í tengivirkið á Hólum svo og 132 kV jarðstreng frá endamastri núvernadi línu á Ægissíðu að nýrri aðveitustöð RARIK, samtals 1,5 km.

Frekari upplýsingar má finna í leyfinu og fylgiskjölum.