Fréttir


HS Orku veitt nýtingarleyfi á grunnvatni og jarðsjó

24.6.2013

Orkustofnun veitir HS Orku nýtingarleyfi á grunnvatni í landi Staðar í Grindavíkurbæ og jarðsjó í landi HS Orku við Vitabraut í Reykjanesbæ. 

Veitt er nýtingarleyfi á annars vegar grunnvatni í formi ferskvatns í landi Staðar, allt að 200 l/s, og hins vegar á grunnvatni í formi jarðsjávar úr borholum í eigin landi, allt að 600 l/s.

Fyrirhugað er að nýta ferska grunnvatnið sem neysluvatn í Reykjanesvirkjun og hjá fyrirtæki á sviði matvælaiðnaðar, við boranir og til þrifa hjá matvælafyrirtækjum og sem slökkvivatn. Nýta á jarðsjóinn sem kælisjó fyrir vélar Reykjanesvirkjunar og þar á eftir hjá öðrum iðnaði á svæðinu.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Reykjanesbæjar og Grindavíkurbæjar. Einnig var leitað umsagnar jarðeiganda Staðar í Grindavíkurbæ, forsætisráðuneytisins og í framhaldi af því fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Gildistími leyfisins er frá 21. júní 2013 til 21. júní 2043. Að þeim tíma liðnum er heimilt að framlengja leyfið til 15 ára í senn nema forsendur leyfisveitingar hafi breyst.

Leyfið

Fylgibréf