Fréttir


Verne Holdings veitt leyfi til stækkunar varaaflsstöðvar

20.6.2013

Orkustofnun veitir Verne Holdings ehf. leyfi til stækkunar varaaflsstöðvar á Ásbrú í Reykjanesbæ úr 4 MW í 8 MW.

Leyfið einskorðast við allt að 8 MW varaaflsstöð og eru breytingar umfram þau mörk háð leyfi Orkustofnunar. Framkvæmdin tryggir framleiðslu á varaafli fyrir gagnaver en leyfið sjálft felur ekki í sér heimild til að afhenda raforku inn á dreifi- og/eða flutningskerfi.

Verne Holdings hyggst ráðast í framkvæmdir vegna síðari hluta fyrsta áfanga í uppbyggingu varaaflsstöðvar fyrir gagnaver fyrirtækisins sem felur í sér tvær nýjar vélar og tvo nýja birgðageyma af sömu stærð og fyrir eru. Núverandi varaaflsstöð er rekin í samræmi við fyrirliggjandi virkjunar- og starfsleyfi.

Gagnaverið er húsnæði með tilheyrandi búnaði sem sérstaklega er byggt utan um tölvubúnað og tilheyrandi raf- og kælibúnað. Til að tryggja að starfsemi gagnversins raskist sem minnst, verði rof á afhendingu rafmagns frá Landsneti, er starfrækt varaaflsstöð við gagnaverið.

Framkvæmdir á grundvelli leyfisins skulu hefjast innan þriggja mánaða frá útgáfu leyfissins og ljúka fyrir 31. desember 2015. Leyfið fellur úr gildi 10 árum eftir veitingu þess ef leyfishafi hefur þá ekki hafið framkvæmdir og 15 árum eftir veitingu þess ef varaaflsstöðin er þá ekki komin í rekstur.

Leyfi Verne Holdings