Fréttir


Virkjunarleyfi Hellisheiðarvirkjunar og sjálfbærni

14.6.2013

Orkustofnun sendir þingmönnum minnisblað um virkjunarleyfi Hellisheiðarvirkjunar og sjálfbærni í framhaldi af fundi stofnunarinnar með umhverfis og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd Alþingis.

Orkustofnun vill koma því á framfæri að í virkjunarleyfi Hellisheiðarvirkjunar sem Orkustofnun veitti Orkuveitu Reykjavíkur árið 2011 eru skilgreind mörk vatnsborðslækkunar í jarðhitakerfinu. Þessum mörkum hefur ekki verið náð eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Í virkjunarleyfinu er tekið fram að það þurfi þrjár nýjar borholur (uppbótarholur) á tveggja ára fresti. Samkvæmt spáreikningum getur orðið erfitt að finna uppbótarholum stað næstu áratugina nema nota nærliggjandi vinnslusvæði sem uppbótarsvæði eins og Orkuveita Reykjavíkur hefur nú kynnt að fyrirtækið ætlar sér að gera.

Mat á umhverfisáhrifum Hverahlíðavirkjunar leiddi í ljós að veruleg óvissa ríkti um samanlögð áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðhitaauðlindina að mati Orkustofnunar þó sú niðurstaða hafi þá mætt andstöðu Orkuveitu Reykjavíkur. Orkustofnun tók fram árið 2007 að reynslan hafi sýnt að vinnslu eru takmörk sett af hendi náttúrunnar og skynsamlegt er að byggja ekki of stór orkuver á sama stað og á sama tíma. Orkustofnun lagði áherslu á að í framhaldinu skyldi haga uppbyggingu jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu í takt við niðurstöður rannsókna, árangur af borunum og rekstur virkjana. Orkustofnun telur að Orkuveita Reykjavíkur hafi farið eftir leiðbeiningum Orkustofnunar frá árinu 2007 við mat á umhverfisáhrifum Hverahlíðarvirkjunar. Hugmyndir Orkuveitu Reykjavíkur um nýtingu nærliggjandi vinnslusvæða til stuðnings við Hellisheiðarvirkjun er því í samræmi við ákvæði gildandi virkjunarleyfis og umsagnar Orkustofnunar um fyrirhugaða Hverahlíðarvirkjun.

Vatnsborðsbreytingar (niðurdráttur) á Hellisheiði (hola HE-04) og ákvæði virkjunarleyfis um leyfilegar vatnsborðsbreytingar.

Ítarefni

Minnisblað Orkustofnunar til umhverfis og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar Alþingis

Álitsgerð faghóps um sjálfbæra nýtingu jarðhita: Eðli jarðhitans og sjálfbær nýting hans

Virkjunarleyfi Hellisheiðarvirkjunar

Umsögn Orkustofnunar við mat á umhverfisáhrifum Bitru- (135 MW) og Hverahlíðarvirkjunar (90 MW)