Fréttir


Kortasafn Orkustofnunar aðgengilegt á netinu

10.6.2013

Orkustofnun hefur sett upp kortaleit á vefsíðu stofnunarinnar þar sem mögulegt er að leita að upplýsingum um þau kort sem stofnunin hefur unnið og staðið að útáfu á í gegnum tíðina.

Um er að ræða svonefnd Orkugrunnkort (1958-1998) og Jarðkönnunarkort (1972-2002). Hægt er að leita eftir átta efnisatriðum: safnnúmeri, kortanúmeri, mælikvarða, titli, kortaflokki, útgáfuári, efnisflokki og ábyrgð. Í leitarniðurstöðum má síðan smella á safnnúmer korts og fá fram mynd af kortinu í góðri upplausn. Alls er um að ræða hátt í 1000 kortatitla, en Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort eru þeir kortaflokkar þar sem Orkustofnun ber samfélagslega ábyrgð á að skrá og tryggja varðveislu.

Orkustofnun hefur áður opnað aðgengi að upplýsingum um þessa kortaflokka í Orkuvefsjá, þar sem hægt er að leita að kortunum eftir landsvæðum. Frumgögn kortanna eru nú varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands. Margar opinberar stofnanir hafa fengið skannanir Orkugrunnkorta og Jarðkönnunarkorta í hágæða upplausn til notkunar. Leitarvélin er ný leið til að bæta aðgengi að upplýsingum um kortaflokka sem tiltölulega fáir hafa haft aðgang að þar til nýlega.