Fréttir


Jarðhitaskólinn og HR skrifa undir samning um meistaranám

17.5.2013

Forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Orkumálastjóri og rektor Háskólans í Reykjavík skrifuðu í dag undir samning  milli Háskólans í Reykjavík um meistaranám útskrifaðra nemenda Jarðhitaskólans við Háskólann í Reykjavík.

Í samningnum er gert ráð fyrir því að nemendur sem útskrifast úr JHS eigi möguleika á framhaldsnámi við Háskólann í Reykjavík (HR) á þeim fræðasviðum verkfræði sem tengjast nýtingu jarðhita.

Námið sem JHS býður upp á skal metið til 30 ECTS eininga af alls 120 eininga MSc námi við tækni- og verkfræðideild HR. Leiðbeinendur MSc nema verða ýmist kennarar við HR eða sérfræðingar á ÍSOR eða Orkustofnun.

JHS mun beita sér fyrir því að afla styrkja til MSc náms fyrir nemendur sem sótt hafa nám við JHS og hyggja á framhaldsnám. í upphafi er miðað við tvo styrki árlega. Þessum styrkjum er ætlað að standa undir framfærslu nemenda svo og kostnaði við leiðbeiningarstörf og rekstur. Greiðslur vegna leiðbeiningarstarfa og reksturs skulu miðaðar við reglur HR þar að lútandi. Tækni -  og verkfræðideild mun veita að hámarki þremur nemendum árlega sem koma á vegum JHS í framhaldsnám við deildina styrk sem nemur skólagjöldum í framhaldsnámi.


Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er rekinn samvkæmt samningi milli Orkustofnunar og Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó og hóf starfsemi sína á Íslandi árið 1979. Skólinn býður árlega upp á 6 mánaða sérhæft nám í jarðhitafræðum, sem er aðallega ætlað verkfræðingum og raunvísindamönnum frá þróunarlöndunum sem starfa að jarðhitaverkefnum.