Fréttir


Þriðja leyfisveitingin í farvatninu á Drekasvæðinu

3.5.2013

Áfanga náð í úrvinnslu á umsókn Eykon Energy um sérleyfi á Drekasvæðinu.

Orkustofnun veitti Eykon Energy ehf. frest til 1. maí 2013 til að tilgreina samstarfsaðila að umsókn sinni og samþykki þeirra aðila fyrir samaðild að umsókn félagsins, ásamt viðeigandi upplýsingum um þá umsækjendur eins og frá greinir í lýsingu annars útboðs sérleyfa til leitar og vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu. Í framhaldi þess myndi Orkustofnun taka umsókn Eykon Energy til lokaafgreiðslu.

Mögulegir samstarfsaðilar hafa lýst yfir áhuga á samstarfi við Eykon Energy um nefnda umsókn. Jafnframt liggur fyrir að umræddir aðilar þurfa lengri frest til að ræða nánar möguleika samstarfsins áður en endanleg ákvörðun getur legið fyrir af þeirra hálfu. Orkustofnun hefur samþykkt að veita svigrúm til að ljúka þeim viðræðum til 1. júlí næstkomandi, að þeirra ósk, auk þess sem fyrirhugaðir samstarfsaðilar hafa óskað viðræðna við Orkustofnun.

Orkustofnun mun eiga frekari viðræður við Eykon Energy og fyrirhugaða samstarfsaðila þeirra um umsókn Eykon Energy um miðjan maí mánuð. Orkustofnun gerir ráð fyrir að Eykon Energy tilgreini endanlega samstarfsaðila að umsókn sinni og samþykki þeirra aðila fyrir samaðild sinni að umsókninni, innan tilskilins frests. Í framhaldi þess mun Orkustofnun taka umsókn Eykon Energy ofl. til lokaafgreiðslu. Þeirri málsmeðferð gæti lokið á þessu ári.