Fréttir


Ársfundur Orkustofnunar 2013 

15.4.2013

Ársfundur Orkustofnunar var haldinn síðasta föstudag í fundarsal Nauthóls við Nauthólsveg. Ársskýrslu stofnunarinnar var dreift á fundinum ásamt Orkutölum.

Fjölmennt var á fundinum en ávörp fluttu atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon og orkumálastjóri, Guðni A. Jóhannesson. Ársskýrslu Orkustofnunar 2012 var dreift á fundinum ásamt Orkutölum.

Forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Ingvar Birgir Friðleifsson,  fjallaði meðal annars um þau tímamót sem eiga sér stað um þessar mundir hjá jarðhitaskólanum en Ingvar Birgir kveður skólann eftir rúmlega 30 ára starf sem forstöðumaður. Hann hefur starfað við skólann frá stofnun árið 1979.

Glærur Ingvars Birgis

Orkustofnun gefur reglulega út eldsneytisspá og Ágústa Loftsdóttir, verkefnsisstjóri eldsneytis og vistvænnar orku heldur utan um þann málaflokk. Ágústa fjallaði um vistvæna eldsneytisspá og þau markmið sem gerð hafa verið í þeim efnum. Þar á meðal 20/20 markmið Íslands en þar segir meðal annars að “ Stefna skal að því að árið 2020 verði Ísland öflugt samfélag sem stendur vörð um velferð á sjálfbæran hátt í þágu allra hópa samfélagsins.” Þá fjallaði Ágústa um stöðuna og hvernig málin eiga eftir að þróast á næstu árum miða við þá vistvænu eldsneytisspá sem gerð hefur verið.

Glærur Ágústu

Frá norsku olíueftirlitsstofnuninni fluttu erindi þeir Øyvind Tuntland og Finn Carlsen. Fjölluðu þeir meðal annars um hlutverk eftirlitsstofnanna við olíuleit. Í erindi þeirra miðluðu þeir af 40 ára reynslu Noregs af olíuiðnaði en olíuvinnsla er stærsti iðnaður Noregs. Norska olíueftirlitsstofnunin PSA (Petroleum Safety Authority Norway) var stofnuð árið 1973 og þeirra hlutverk er að sjá um eftirlit í olíuiðnaði og nær það hlutverk yfir heilsu, umhverfi og fjárfestingar/ tekjur.


Glærur norsku olíueftirlitsstofnunarinnar

Ársskýrsla Orkustofnunar