Fréttir


Raforkunotkun ársins 2012

4.4.2013

Raforkuvinnsla á landinu eykst um tvö prósent frá fyrra ári og almenn notkun um tæp tvö prósent. Notkun stóriðju vex nokkuð og á það við um öll nema eitt stóriðjufyrirtækjanna en þar kemur líka inn að hjá einu fyrirtækjanna var ekki full nýting árið 2011 vegna rekstraróhapps.

Raforkuhópur orkuspárnefndar gefur árlega út raforkuspá og yfirlit yfir helstu tölur um raforkunotkun ársins. Þar kemur fram að árið 2012 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 17.549 GWh og jókst um 2,0% frá fyrra ári. Stórnotkun nam 13.545 GWh á árinu 2012 og jókst um 2,0% frá fyrra ári. Almenn notkun jókst um 1,7% og nam 3.665 GWh.  Töp við flutning orkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda voru 339 GWh og jukust um 5,0% vegna óvenju mikilla flutninga til Austurlands undir lok árs.

Veðurfar hefur nokkur áhrif á raforkunotkun aðallega vegna rafhitunar húsnæðis.  Til að fá eðlilegan samanburð milli ára hvað varðar þróun almennrar raforkunotkunar er hún oft leiðrétt út frá lofthita.  Síðasta ár var heldur hlýrra en árið á undan og aukning notkunar milli ára er því heldur meiri eftir hitastigsleiðréttingu. Tölur leiðréttar út frá lofthita eru sýndar innan sviga þar sem slíkt á við. Notkun stóriðju vex nokkuð og á það við um öll nema eitt stóriðjufyrirtækjanna en þar kemur líka inn að hjá einu fyrirtækjanna var ekki full nýting árið 2011 vegna rekstraróhapps. Raforkuvinnsla á landinu í hlutfalli við fólksfjölda var 54,7 MWh/íbúa en almenn notkun með dreifitöpum var 11,4 MWh/íbúa.

Samantekt Orkuspárnefndar