Fréttir


Orkustofnun veitir Stolt Sea Farm Holdings Iceland nýtingarleyfi á jarðsjó í landi HS Orku

18.3.2013

Orkustofnun hefur veitt Stolt Sea Farm Holdings Iceland nýtingarleyfi á jarðsjó úr borholum sem staðsettar eru við fyrirhugaða fiskeldisstöð félagsins í landi HS Orku hf.

Leyfið tekur til nýtingar á jarðsjó til fiskeldis. Leyfið felur í sér heimild til handa leyfishafa til að nýta jarðsjóinn á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum sem tilgreindir eru í leyfinu og lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Gildistími leyfisins er frá 15. mars 2013 til 15. mars 2043, heimilt er að framlengja leyfið til 15 ára í senn nema forsendur leyfisins hafi breyst og sýnt sé fram á að óbreytt nýting hafi skaðleg áhrif á auðlindina eða nærliggjandi grunnvatn.

Leyfishafa er heimilt að nýta allt að 2000 l/s af jarðsjó á tilgreindu svæði en skal við framkvæmdir og nýtingu á sínum vegum taka tillit til og hafa samráð við aðila sem stunda nýtingu í nágrenni nýtingarsvæðisins.

Við mat á umsókninni og í samræmi við auðlinda- og stjórnsýslulög óskaði Orkustofnun umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Reykjanesbæjar. Einnig var leitað umsagnar jarðeiganda.

Frekari upplýsingar má finna í leyfinu og fylgiskjölum.