Fréttir


Forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna heiðraður á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu í Hörpu

15.3.2013

IMG_6822

Forstöðumaður Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Dr. Ingvar Birgir Friðleifsson, var heiðraður á jarðhitaráðstefnu í Hörpu þann 7. mars síðastliðinn

Það var stjórn Íslenska jarðvarmaklasasamstarfsins sem samþykkti einróma að veita Dr. Ingvari Birgi Friðleifssyni, forstöðumanni Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, heiðursviðurkenningu fyrir ómetanlegt starf í þágu menntunar í jarðvarmavísindum á alþjóðavettvangi.

Ingvar Birgir hefur gegnt stöðu forstöðumanns Jarðhitaskólans frá upphafi (utan tveggja ára) frá árinu 1979 þegar skólinn var stofnaður. Nemendurnir hafa allir  háskólagráðu í raunvísindum eða verkfræði og eru fastráðnir við jarðhitarannsóknir eða vinnslu hjá orkufyrirtækjum eða rannsóknastofnunum í sínum heimalöndum. Frá stofnun skólans hafa 515 nemendur frá 53 þróunarlöndum útskrifast eftir sex mánaða sérhæft nám, en skólinn býður upp á níu námsbrautir. Nemendurnir hafa síðan allir farið til sinna heimalanda með íslenskt og alþjóðlegt hugvit og þekkingu í farteskinu. Íslendingar geta verið stoltir af þessu markvissa og vel heppnaða framlagi til þróunarmála og þáttur Ingvars Birgis er þar mikill, bæði við uppbyggingu og stjórn skólans, og í að byggja upp öflugt tengslanet þeirra sem sótt hafa skólann.

Ingvar Birgir hefur á þeim árum sem hann sinnti starfi sínu sem forstöðumaður einnig gengt mikilvægum störfum á alþjóðlegum vettvangi. Var til að mynda í stjórn og forseti Alþjóðajarðhitasambandsins (International Geothermal Association).