Fréttir


Leyfi hér og leyfi þar

11.3.2013

Það vefst fyrir mörgum hvaða opinberu leyfi þeir þurfi og hvað þau innifela hvert um sig. Í byrjun árs 2012 tók Orkustofnun við valdi til leyfisveitinga skv. raforkulögum, auðlindalögum og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Síðla árs 2011 hafði stofnuninni verið falið sama vald skv. vatnalögum.

Jafnframt tók úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála við hlutverki úrskurðaraðila um leyfisgjöfina. Frá miðju ári 2008 hafði stofnunin raunar gefið út virkjunar-, rannsóknar- og nýtingarleyfi í umboði ráðherra, jafnframt því sem hún fór með leyfisgjöf skv. kolvetnislögum. Átti þessi breyting á hlutverki Orkustofnunar í stjórnsýslunni sér því nokkurn aðdraganda.

Orku- og auðlindamál eiga snertifleti við nokkra aðra mikilvæga þætti í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, svo sem heilbrigðismál, skipulagsmál og umhverfismál, þar sem einnig er krafist ýmissa leyfa frá mismunandi þar til bærum aðilum. Þannig nægir mönnum sjaldnast að hafa aðeins eitt eða tvö leyfi til starfsemi sinnar á þeim sviðum þar sem þörf er á rannsóknar-, nýtingar- eða virkjunarleyfi frá Orkustofnun. Það er reynsla stofnunarinnar á þeim tíma sem hún hefur farið með leyfisveitingarvald sitt að jafnvel gamalgrónir aðilar eigi erfitt með að gera sér grein fyrir samspili hinna ýmsu leyfa, inntaki hvers um sig og grundvellinum fyrir nauðsyn þeirra. Hér er greinilega verk að vinna í innbyrðis samhæfingu stjórnsýslunnar, bæði hjá sveitarfélögum og hjá ríkinu, og jafnframt í almennri upplýsingagjöf út á við.

Meiri misskilningur virðist vera uppi um inntak sumra leyfa en annarra. Þannig er eins og rannsóknarleyfum skv. auðlindalögum sé gefið meira vægi í umræðunni en þeim ber. Er það væntanlega leifar frá fyrri tíð, þegar slík leyfi fólu í sér fyrirheit um nýtingu í framhaldinu. Í raun fela rannsóknarleyfi skv. auðlindalögum þó einungis í sér framsal á rétti ríkisins til rannsókna á tiltekinni auðlind á tilteknu svæði og í afmarkaðan tíma. Að hafa fengið rannsóknaleyfi á tilteknu svæði er ekki skilyrði fyrir því að sækja um eða fá nýtingarleyfi. Hins vegar fær leyfishafi rannsóknarleyfis vörn fyrir fjárfestingu sína í rannsóknum gagnvart síðari nýtingarleyfishafa.

Orkustofnun telur nauðsynlegt að sveitarfélög og ríkisstofnanir samræmi upplýsingagjöf sína, þannig að vakin sé athygli leyfisumsækjenda hjá viðkomandi aðila á því, hvaða önnur leyfi hann væntanlega þurfi, og hvar beri að sækja um þau. Þannig má forðast óþarfa tafir í afgreiðslu leyfa, að ekki sé minnst á misskilning um inntak þeirra. Ábendingum um þetta  hefur þegar verið komið á framfæri við aðra leyfisgjafa, og verður framhald á þeirri viðleitni Orkustofnunar á næstunni.