Fréttir


Varmageymir í bifreiðar til forhitunar fyrir ræsingu

25.2.2013

Næsta miðvikudagserindi verður þann 27. febrúar klukkan 12:00. Í erindinu verður hönnunarferli varmageymis lýst ásamt stýribúnaði sem notaður er til að stjórna kælivatnsflæði. Til sýnis verða frumgerðir af þessum búnaði. Höfundar eru Halldór Pálsson og Rúnar Unnþórsson

Í verkefninu er verið að skoða nýstárlega aðferð til forhitunar. Varmaorka er geymd í ökutækinu með það í huga að hita vélina á skömmum tíma þannig að hægt sé að ræsa 1-2 mínútum eftir upphaf hitunar.  Hugmyndin byggir á að nota kút sem er hluti af kælivatnsrás vélar og er stýrt af notanda ásamt hitanemum. Í akstri er afgangsorka sem verður til við bruna notuð til að fylla kútinn af heitum kælivökva og því þarf ekki neina utanaðkomandi orku til að viðhalda getu kerfisins til hitunar við ræsingu.

Áhrif forhitunar á vélum í bifreiðum eru vel þekkt en sýnt hefur verið fram á að slík forhitun dregur verulega úr mengun fyrstu mínúturnar eftir ræsingu. Einnig getur slík forhitun dregið að einhverju marki úr eldsneytisnotkun þar sem minna eldsneyti þarf til að hita vél og tengdan búnað upp í eðlilegt vinnsluhitastig.