Fréttir


Fyrsti doktorsnemi Jarðhitaskólans ver doktorsritgerð

15.2.2013

Fyrsti doktorsnemninn sem Jarðhitaskólinn styrkir mun verja doktorsritgerð sína í dag klukkan 14:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Doktorsvörnin er öllum opin.

Pacifica F. Achieng Ogola mun verja doktorsritgerð sína: Afl til breytinga: Notkun jarðhita til aukningar lífsgæða sem og aðlögunar og mildunar loftslagsbreytinga (á ensku: The power to change: Creating lifeline and mitigation-adaptation opportunities through geothermal energy utilization).


Pacifica F. Achieng Ogola fæddist 1970 í Kisumu, Kenya. Hún á 6 systkini og tvær dætur. Pacifica er með BS gráðu í landafræði og MS gráðu í umhverfisfræði frá Kenyatta University in Nairobi. Hún kom til Íslands í 6 mánuði árið 2004 til Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og sneri síðan aftur árið 2009 til að vinna að doktorsgráðu í Umhverfis og auðlindafræði HÍ á styrk frá Jarðhitaskólanum.

Ritgerðin mun liggja frammi á skrifstofu Líf- og umhverfisvísindadeildar í Öskju til skoðunar.

Andmælendur eru Michael Evan Goodsite prófessor við Árósarháskóla í Danmörku (Aarhus University) og dr. Halldór Ármannson við Íslenskar orkurannsóknir (ISOR).

Leiðbeinendur eru dr. Brynhildur Davíðsdóttir dósent í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, og dr. Ingvar Birgir Friðleifsson forstöðumaður Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Með þeim í doktorsnefnd er dr. Sigurður Snorrason við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Dr. Eva Benediktsdóttir dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar mun stjórna athöfninni.

Ritgerðin mun liggja frammi á skrifstofu Líf- og umhverfisvísindadeildar í Öskju til skoðunar.


Ágrip úr ritgerð:

Aðgangur að hágæðaorku er forsenda hagþróunar og framfara í anda Þúsaldarmarkmiðanna, en loftslagsbreytingar ógna því að markmiðin náist. Til að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin og aðgerðaráætlanir vegna loftslagsbreytinga (sem fela í sér bæði aðlögun og minni losun gróðurhúsalofttegunda) er nauðsynlegt að byggja orkukerfi framtíðarinnar á kolefnissnauðum orkulindum.

Rannsókn þessi metur möguleg áhrif nýtingar jarðhita á samfélagsþróun, sjálfbærni og aðlögun að loftslagsbreytingum innan ramma Þúsaldarmarkmiðanna á tveimur landsvæðum i Sigdalnum mikla í Kenía (Marigat og East Pokot héraða innan Baringo láglendisins).

Möguleikar jarðhitanýtingar í atvinnugreinum viðkvæmum fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og í ferlum sem leiða til aukinnar tekjumyndunar innan 50 km radíuss frá jarðhitasvæðum eru metnir og sýndir í Líndal grafi.

Einnig er fjallað um neikvæð áhrif á aðlögun vegna mögulegrar nýtingar jarðhitans.

Til að leiða í ljós samverkandi áhrif þess að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og aðlögun að loftslagsbreytingum er Geo-AdaM líkanið sett fram og bent á mögulega samverkandi ábata beggja leiða, fórnarskipti og takmarkanir.

Að lokum er mögulegur ábati sem og þróun innviða í tengslum við jarðhitanýtingu (raforkuframleiðslu og gróðurhús) í Olkaria í Naivashahéraði metin, sem og möguleikar þess að svipaður ábati náist í East Pokot, sem er mun vanþróaðra svæði í austurhluta Baringo láglendisins. Í heildina sýnir rannsóknin fram á mögulegan félagshagrænan ábata þess að nýta jarðhitaauðlindir í Baringo héraðinu áður en jarðboranir hefjast á því svæði. Rannsóknin getur því nýst í áætlanagerð, bæði fyrir fjárfesta og fyrirtæki, sem huga að framkvæmdum tengdum jarðhitanýtingu, við að greina möguleika á jákvæðum áhrifum framkvæmdanna á velferð íbúa á öðrum vanþróuðum svæðum áður en dýrar jarðboranir hefjast.