Fréttir


Áhugasamir gestir fjölmenntu á ráðstefnu um framtíð norrænna orkukerfa.

12.2.2013

Hringbordsumraedur-Um 100 manns sóttu ráðstefnuna sem fjallaði um framtíð norrænna orkukerfa og var haldin í tilefni af útgáfu skýrslu alþjóðlegu orkustofnunarinnar (IEA). 

Norrænu ríkin standa frammi fyrir fjölmörgum áskorunum á næstu áratugum ef þau markmið, sem löndin hafa sett sér um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, eiga að nást. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA) um framtíð norrænna orkukerfa, en að henni komu m.a. vísindamenn við Háskóla Íslands undir forystu Brynhildar Davíðsdóttur, dósents í umhverfis- og auðlindafræði, og Ragnheiðar Ingu Þórarinsdóttur, stundakennara við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

Skýrslan, sem ber heitið „Nordic Energy Technology Perspectives“, er sú fyrsta sem Alþjóðaorkumálastofnunin hefur unnið fyrir eitt svæði og voru Norðurlöndin fyrst fyrir valinu. Í henni er brugðið upp sviðsmyndum af því hvernig Ísland og hin norrænu ríkin geta komið á orkukerfi sem eykur ekki kolefnislosun (carbon-neutral) fyrir árið 2050. Þar er jafnframt bent á fjölmargar breytingar sem vinna þurfi að í norrænu samfélögum til þess að koma í veg fyrir að hitastig í heiminum hækki ekki meira en um tvær gráður fram til ársins 2050. Gestir-i-sal

Í skýrslunni er bent á að norrænu ríkin þurfi að hætta algjörlega að nýta jarðefnaeldsneyti til rafmagnsframleiðslu en í staðinn að auka hlut m.a. vindorku. Þar er miðað við að hlutur hennar aukist úr þremur prósentum, eins og hann er í dag, í 25 prósent árið 2050. Mikilvægur þáttur í því sé að bæta innviði raforkukerfa. Þá segir í skýrslunni að ef orkuverð reynist hagstætt geti norrænu ríkin flutt út á bilinu 50-100 terawattsstundir árlega þegar til lengri tíma er litið. 

Bent er á í skýrslunni að til þess að draga úr orkuþörf á Norðurlöndum um sjö prósent milli áranna 2010 og 2050 þurfi umtalsverðar breytingar á orkunotkun bæði á heimilum, fyrirtækjum, í iðnaði og samgöngum. Þannig þurfi að draga úr orkunotkun á hvern fermetra um 35% frá því sem nú er og þá verði að draga úr nettólosun gróðurhúsalofftegunda í iðnaði með því meðal annars að nýta nýjar aðferðir til að beisla og geyma í auknum mæli það koltvíoxíð (Carbon Capture and Storage (CCS)) sem streymi frá verksmiðjum. 

Mestra breytinga sé þó þörf á samgönguháttum Norðurlandabúa þar sem draga verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 80-90 prósent fram til ársins 2050. Þetta þýði að sala á rafmagnsbílum verði að tvöfaldast á hverju ári næsta áratuginn þannig að þeir skipi 30% bílaflota Norðurlanda árið 2030 og 90% árið 2050. Þá verði lífeldsneyti að standa undir farartækjum í flutningastarfsemi og hugsanlegt sé að norrænu þjóðirnar þurfi að flytja inn lífmassa vegna þess.


Skýrslan "Nordic Energy Technology Perspective"