Fréttir


Leyfisveitingar á Drekasvæði í Landgrunnsvefsjá

11.2.2013

Gagnaþekja með upplýsingum um leyfissvæði sérleyfa til rannsókna og vinnslu á kolvetni á Drekasvæðinu hefur verið birt í Landgrunnsvefsjá Orkustofnunar. Í vefsjánni er nú hægt að fá yfirsýn yfir þau svæði sem leyfin ná til og staðsetningu helstu rannsóknargagna.

Í undirkafla vefsjárinnar um leyfisveitingar er einnig að finna fjórar aðrar gagnaþekjur (Mörk og reitir). Tvær þeirra sýna annars vegar afmörkun sameiginlegs samningsvæðis Íslands og Noregs og hins vegar afmörkun norðurhluta Drekasvæðisins sem útboð náðu til, en hinar tvær sýna reitakerfi, þ.e. gráðureitakerfi norðaustur af Íslandi þar sem hver reitur er ein gráða í lengd og breidd og hins vegar nánara reitakerfi á norðurhluta Drekasvæðisins þar sem hverjum gráðureit er skipt í 12 minni reiti.

Með því að opna áðurnefndar þekjur í vefsjánni ásamt dýptargögnum og örnefnum, má fá yfirsýn yfir þau svæði sem leyfin ná til. Þá er jafnframt mögulegt að opna gagnaþekjur sem gefa yfirsýn yfir staðsetningu allra helstu rannsóknagagna á Drekasvæðinu svo sem hljóðendurvarpsmælingar, fjölgeislamælingar, rannsóknaborholur og yfirborðssýni. Allar upplýsingar í Landgrunnsvefsjá eru bæði á íslensku og ensku.

Nánari upplýsingar:   www.landgrunnsvefsjá.is (Landgrunnsvefsjá> Leyfisveitingar> Sérleyfi>) og á vef Orkustofnunar undir olíuleit. www.os.is/oliuleit/