Fréttir


Orkustofnun veitir Íslenskri vatnsorku ehf. rannsóknarleyfi vegna áætlunar um Búðartunguvirkjun í Hvítá í Árnessýslu

11.2.2013

Þann 1. febrúar sl. veitti Orkustofnun Íslenskri vatnsorku ehf. rannsóknarleyfi vegna áætlana um Búðartunguvirkjun í Hvítá í Árnessýslu. Stefnt er að því að rannsaka hagkvæmni Búðartunguvirkjunar, vega og meta mismunandi útfærslu og meta umhverfisáhrif virkjunar sbr. meðfylgjandi rannsóknarleyfi og ásamt fylgigögnum.

Búðartunguvirkjun í Hvítá í Árnessýslu yrði útfærð sem rennslisvirkjun með allt að 30 MW afli og 240 GWh orkuvinnslu. Rannsóknarleyfið felur ekki í sér heimild til nýtingar á auðlind né fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi eða virkjunarleyfi, komi til mögulegrar nýtingar á auðlindinni.  Orkustofnun bendir á að þrátt fyrir útgáfu þessa rannsóknarleyfis eru fyrirhugaðar framkvæmdir rannsóknarleyfishafa háðar leyfum þar til bærra yfirvalda. Þannig gilda til að mynda ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, laga um náttúruvernd og skipulagslög um allar framkvæmdir rannsóknarleyfishafa.  Svæðið er í biðflokki samkvæmt rammaáætlun sem afgreidd hefur verið á Alþingi og lög nr. 48/2011 geta takmarkað rétt leyfishafa.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar umhverfisráðuneytisins og landeiganda þ.e. forsætisráðuneytisins vegna þjóðlendu og sveitarfélagsins Bláskógabyggðar.

Leyfið gildir til 31. desember 2018. Rannsóknir leyfishafa eða undirbúningur þeirra skal hefjast innan fjögurra mánaða frá útgáfu leyfisins og ljúka fyrir árslok 2018.

Leyfið og fylgiskjöl má finna hér