Fréttir


Orkustofnun gefur út rannsóknarleyfi vegna virkjunaráætlana á vatnasviði Farsins við Hagavatn

11.2.2013

Þann 1. febrúar sl. veitti Orkustofnun Hagavatnsvirkjun ehf. rannsóknarleyfi á vatnasviði Farsins við Hagavatn. Leyfið er veitt á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og felur í sér heimild til handa leyfishafa til að framkvæma mælingar og rannsóknir á viðkomandi svæði á leyfistímanum í samræmi við rannsóknaráætlun.

Leyfið felur hvorki í sér heimild til nýtingar eða virkjunar á vatnasviði rannsóknarsvæðisins, né forgang til slíkrar nýtingar eða fyrirheit um virkjunarleyfi. Komi til nýtingar þarf leyfishafi að sækja um sérstakt virkjunarleyfi og ná samkomulagi við umráðahafa vatnsréttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar.

Leyfið gildir til 31. desember 2018. Rannsóknir leyfishafa eða undirbúningur þeirra skal hefjast innan fjögurra mánaða frá útgáfu leyfisins og ljúka fyrir árslok 2018.

Orkustofnun barst umsókn Íslenskrar vatnsorku þann 4. nóvember 2011. Þar kom fram að í senn væri sótt um framlengingu á fyrra rannsóknarleyfi og framsal á því til Hagavatnsvirkjunar ehf. Orkustofnun ákvað í samráði við leyfishafa að afgreiða umsóknina þannig að leyfið yrði í senn framlengt og framselt til Hagavatnsvirkjunar ehf.

Umrædd virkjunarhugmynd var ein af þeim hugmyndum sem var til meðferðar í 2. áfanga rammáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Iðnaðarráðuneytið ákvað í bréfi dagsettu 6. júlí 2011 að fresta útgáfu rannsóknarleyfa vegna fyrirhugaðra vatnsafls og jarðvarmavirkjana þar til tillaga til þingsályktunar yrði afgreidd eða til 1. febrúar 2012. Umsýsla með útgáfu leyfa var færð til Orkustofnunar frá og með 1. janúar 2012. Umsækjandi sendi til Orkustofnunar þann 12. apríl 2012 uppfærða rannsóknaráætlun vegna framkvæmdanna. Þann 20. desember 2012 barst Orkustofnun yfirlýsing frá Hagavatnsvirkjun ehf. um fjárhagslega getu félagsins til að standa að baki verkefnum félagsins. Þar sem umsóknin varðaði framlengingu og framsal á rannsóknarleyfi til Hagavatnsvirkjunar ehf. leit Orkustofnun á Hagavatnsvirkjun ehf. sem umsækjanda. Ekki var unnt að taka afstöðu til þess hvort framsal leyfisins væri heimilt fyrr en sú yfirlýsing lá fyrir. Af fyrrgreindum ástæðum hefur meðferð málsins tafist.

Leyfið, ásamt fylgiskjölum má finna hér