Fréttir


Vinnslusvæði hitaveitna. Tíðni forða- og efnaeftirlits.

6.2.2013

Islandskort---vinnsluholur

Orkustofnun gefur út skýrsluna: Vinnslusvæði hitaveitna: Tíðni forða- og efnaeftirlits. Í skýrslunni er fjallað um vinnsluholur 53 hitaveitna sem standa undir yfir 80% af frumorkuvinnslu á lághita­svæðum landsins með 173 vinnsluholum og 9 hverum.

Niðurdælingarholur eru 5 talsins. Meðaltalsholan er orðin 30 ára gömul og 88°C heit. Hún er 1055 metra djúp með stálfóðringu niður á 223 metra. Í skýrslunni er farið yfir stöðu eftirlits hjá hverri sérleyfisveitu á landinu ásamt völdum einkaveitum. Í byrjun hvers kafla er veitan stuttlega kynnt ásamt því sem lagt er mat á eigið eftirlit hitaveitnanna hvað varðar tíðni og útgáfu skýrslna. Í lok hvers kafla eru annars vegar birtar töflur með upplýsingum um borár, dýpi og fóðringardýpi holnanna ásamt hitastigi jarðhitavökvans við holutopp og hins vegar myndir sem sýna staðsetningu vinnsluholnanna og hveri.

Margar hitaveitur, sérstaklega sérleyfisveitur, hafa staðið vel að eftirliti sínu með vinnslu úr jarðhitakerfi með því að halda við rafrænni sískráningu á vatnsnámi, hitastigi og vatnsborðsbreytingum og margar hitaveitur sinna einnig efnaeftirliti í samræmi við ráðgjöf sérfræðinga þó þeim upplýsingum sé ekki miðlað til eftirlitsstofnanna og almennings í formi skýrslna. Niðurstöður sýna engu að síður að helmingur veitnanna skráir vatnsnám og vatnsborð sjaldnar en mánaðarlega og hitastig sjaldnar en árlega. Samkvæmt kröfum Orkustofnunar í nýtingarleyfum telst það ófullnægjandi eftirlit. Mikilvægt er að rekstraraðilar hitaveitna fylgist vel með vinnslu jarðhita og haldi skrá um hana. Reglubundið eftirlit hitaveitna getur tryggt frekar langtíma nýtingu jarðhitans á viðráðanlegu verði fyrir komandi kynslóðir. Rekstaraðilum ber að líta til samfélagslegra hagsmuna sem felast í jarðhitanýtingu og haga eftirliti í samræmi við þá hagsmuni.

Höfundar skýrslunnar eru Anna Lilja Oddsdóttir og Jónas Ketilsson.

Ábendingar um skýrsluna má meðal annars senda rafrænt á netfangið <jardhitaeftirlit@os.is>.

Skýrsluna má nálgast rafrænt hér.