Fréttir


Nýting útblástursgass frá Orkuveri HS Orku hf. í Svartsengi til þörungaræktunar  

4.2.2013

Halldór G. Svavarsson mun fjalla um nýtingu útblástursgass frá Orkuveri HS Orku hf. í Svartsengi til þörungaræktunar næstkomandi miðvikudag þann 6. febrúar klukkan 12:00.

Bláa Lónið hf var styrkt af Orkusjóði í gegnum Norður evrópska orkurannsókna verkefnið, „N-INNER“, til rannsókna á nýtingu útblástursgass frá Orkuveri HS Orku hf. í Svartsengi til þörungaræktunar.

Vinnuheiti verkefnisins var LIPIDO sem stendur fyrir „Optimizing Lipid Prodcution by Planktonic Algae“ eða Hámörkun lípíðframleiðslu með svifþörungum. Við rannsókn Bláa Lónsins voru ræktaðar tvær tegundir þörunga þar sem umhverfisbreytum á borð við hitastig, seltu og sýrustigi var breytt.

Borin var saman ræktun þörunga sem fóðraðir voru á aðkeyptu, hreinu, CO2 annarsvegar og CO2 ríku útblástursgasi frá HS orku hinsvegar. Samanburður var framkvæmdur á samsetningu og magni lipíða í þörungunum.

Megin niðurstaðan var að vaxtarhraði þörunga væri síst minni með notkun útblástursgassins en hreina gassins. Í fyrirlestrinum verður gerð nánari grein fyrir framkvæmd rannsóknarinnar og niðurstöðum hennar

Fyrirlesturinn verður haldinn í Víðgelmi, fyrirlestrarsal Orkustofnunar.

Allir velkomnir