Fréttir


Orkustofnun svarar beiðni Landsnets um breytingar á gjaldskrá

21.12.2012

Orkustofnun barst erindi Landsnets þann 19. nóvember þar sem kynntar voru tillögur að hækkunum á gjaldskrá fyrirtækisins vegna flutnings á raforku. Orkustofnun telur að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar til að heimila hækkun á gjaldskrá Landsnets vegna flutnings til almennra notenda á þessu stigi en gerir ekki athugasemdir við aðrar tillögur.

Landsnet lagði fram eftirfarandi tillögur:


Hækkun á flutningsgjöldum vegna almennra notenda um 9%.

Hækkun á flutningsgjöldum vegna stóriðju um 20%.

Hækkun á afhendingargjöldum um 9% í samræmi við hækkun hjá almennum notendum.

Hækkun á gjaldskrá fyrir kerfisþjónustu sem nemur 27%.

Lækkun á gjaldskrá fyrir flutningstöp um 6,8%.


Miðað var við að gjaldskrárbreytingarnar tækju gildi þann 1. janúar 2013.


Orkustofnun telur að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar til að heimila hækkun á gjaldskrá Landsnets vegna flutnings til almennra notenda á þessu stigi. Sögulegur yfirdráttur á tekjumörkum til almennra notenda nam 1.484 milljónum króna í lok árs 2010. Drög að uppgjöri tekjumarka 2011 gefur ekki til kynna að Landsnet sé að greiða niður skuld við almenna notendur með eðlilegum hraða. Orkustofnun leggur til að aðilar máls ljúki við uppgjör tekjumarka 2011 sem fyrst og í kjölfarið leggi Landsnet fram endurgreiðsluáætlun á skuldinni í samræmi við bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 19/2011. Ef endanlegt uppgjör og nýjar forsendur leiði í ljós að grundvöllur fyrir hækkun sé fyrir hendi, þá geri Landsnet tillögu um hækkun í samræmi við niðurstöðurnar.

 

Varðandi hækkun á flutningsgjöldum vegna stóriðju um 20% þá þykir ljóst að lagabreytingarnar frá árinu 2011 leiði til umtalsverðrar hækkunar á tekjumörkum Landsnets vegna stórnotenda. Ekki hefur tekist að ljúka uppgjöri tekjumarka 2011, en fyrirliggjandi drög gefa góða vísbendingu um að 20% hækkun á gjaldskrá vegna flutnings til stórnotenda rúmast innan tekjumarka. Orkustofnun gerir því ekki athugasemdir við tillögu Landsnets að þessu leyti.

 

Orkustofnun gerir ekki athugasemdir við tillögu Landsnets um 9% hækkun á afhendingargjöldum. Ennfremur gerir Orkustofnun ekki athugasemd við tillögur Landsnets um 6,8% lækkun á gjaldskrá fyrir flutningstöp eða 27% hækkun á gjaldskrá vegna kerfisþjónustu.

 

Vísað er til 12. gr. raforkulaga nr. 65/2003, þar sem fram kemur að gjaldskrá fyrir flutning raforku skuli birt opinberlega.