Fréttir


Orkustofnun veitir umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

12.12.2012

Ný stjórnarskrá dregur skil milli eignarréttar til auðlinda í þjóðareign og eignarréttarheimilda sem landeigendur hafa til auðlindanýtingar. Þetta kemur fram í umsögn Orkustofnunar um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Ákvæði 34. gr. um náttúruauðlindir er nýmæli í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá sem nú er til meðferðar hjá Alþingi. Markmið ákvæðisins er meðal annars að kveða á um þjóðareign að náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti og skilgreina inntak þjóðareignar. Með ákvæðinu er ekki hróflað við þeim eignarréttindum sem þegar kunna að vera fyrir hendi að auðlindum og þeim heimildum eigenda sem slíkum eignarrétti fylgja. Orkustofnun bendir hins vegar á að með samþykkt frumvarpsins verði þjóðareign á auðlindum undir yfirborði jarðar tryggð með nýrri stjórnarskrá eins og til að mynda varmaorku jarðhitakerfisins sem nýtt er til raforkuframleiðslu á háhitasvæðum, án þess að gengið sé á eignarrétt landeiganda til venjulegrar hagnýtingar fasteignar, m.a. til heimilis og búsþarfa, þar með talið til ylræktar, iðnaðar og iðju að vissu hámarki.

"Það er mat Orkustofnunar að umrætt ákvæði styrki gildandi lagaákvæði um auðlindanýtingu og dragi gleggri skil milli eignarréttar til auðlinda í þjóðareign og þeirra heimilda sem eigendur hafa til auðlindanýtingar sem eignarrétti fylgja," segir í umsögn Orkustofnunar.