Fréttir


Bætt frumorkunýtni og samfélag til fyrirmyndar

6.12.2012

Bætt frumorkunýtni og samfélag til fyrirmyndar eru heiti verkefna sem kynnt verða næsta miðvikudag þann 12. desember í Víðgelmi fyrirlestrarsal Orkustofnunar.

Ólafur Pétur Pálsson prófessor og forseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar mun kynna tvö verkefni sem fengið hafa styrk frá Orkusjóði.

Fyrra verkefnið ber titilinn „Bætt frumorkunýtni“. Það verkefni var unnið sem hluti af stærra norrænu verkefni. Markmið verkefnisins er að reikna út frumorkustuðul og útblástursstuðul fyrir íslensk jarðvarmaorkuver. Frumorkustuðullinn segir til um hversu mikla frumorku þarf til þess að framleiða og flytja eina kílóvattsstund (kWh) af orku til neytandans og útblástursstuðullinn telur hversu mikill útblástur á gróðurhúsalofttegundum, reiknuðum í koltvísýringsígildum, fylgir því.

Seinna verkefnið „Samfélag til fyrirmyndar“ fjallar um möguleika Vestmannaeyja til að hanna orkustefnu sem miðar að sjálfbæru samfélagi. Væntur ávinningur verkefnisins er bættur skilningur á orkunotkun, orkusparnaði og bættri umgengni í orkumálum bæjarfélagsins.

Fyrirlesturinn byrjar klukkan 12:00, miðvikudaginn 12. desember og er öllum frjálst að mæta.