Norska ríkisolíufélagið Petoro tekur þátt í olíuleit á íslenska Drekasvæðinu
Orkustofnun hefur nú lokið umfjöllun sinni um tvær umsóknir um sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu. Með svari Norðmanna, sem barst Orkustofnun í dag, 3. desember, hefur verið ákveðið að Petoro, olíufélag norska ríkisins, verði þátttakandi í báðum leyfunum, að fjórðungs hlut í hvoru leyfi fyrir sig eins og samningur Íslands og Noregs gerir ráð fyrir.
Orkustofnun leitaði umsagna umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í samræmi við ákvæði laga og mat þær umsagnir með tilliti til framkominna umsókna og þeirra rannsóknaráætlana sem þar um ræðir. Stofnunin kannaði ítarlega tæknilega og jarðfræðilega getu umsækjenda til að takast á við þá umfangsmiklu starfsemi sem í leyfisveitingunni felst. Þá kannaði Orkustofnun fjárhagslega getu móðurfyrirtækja umsækjenda svo tryggt verði að umsækjendur hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna verkefninu til lengri tíma og til að gæta viðhlítandi umhverfis- og öryggisþátta.
Orkustofnun tók í framhaldi af málsmeðferð sinni ákvörðun um leyfisveitingar á Drekasvæðinu í lok október 2012, til annars vegar Faroe Petroleum Norge AS, útibús á Íslandi, og Íslensks Kolvetnis ehf. og hins vegar Valiant Petroleum ehf. og Kolvetnis ehf. Jafnframt var norskum stjórnvöldum tilkynnt um ákvörðunina og drög að sérleyfum send þeim til skoðunar auk þess sem óskað var eftir formlegu svari Norðmanna við því hvort þeir hyggðu á þátttöku í leyfunum í samræmi við samkomulag milli Íslands og Noregs, frá árinu 1981, sem felur í sér að Norðmenn hafa rétt á allt að 25% þátttöku í sérleyfum á hluta svæðisins.
Væntanlegir leyfishafar hafa kynnt sér leyfisdrögin og komið athugasemdum sínum á framfæri, sem Orkustofnun hefur eftir atvikum samþykkt og aðilar eru ásáttir um. Norðmenn hafa tekið þátt í samráðsferlinu gegnum norska olíu- og orkumálaráðuneytið, kynnt sér leyfisdrögin og á sama hátt komið sínum sjónarmiðum á framfæri.
Áður en sérleyfi verða gefin út þarf norska stórþingið að samþykka þátttöku norska ríkisins og olíufélags þess, Petoro, í verkefnunum. Í kjölfar þess og þegar aðilar sérleyfanna hafa undirritað samstarfsamninga sína um verkefnin mun Orkustofnun gefa út umrædd leyfi, væntanlega í byrjun janúar á næsta ári.
Þriðja umsóknin um sérleyfi var frá Eykon ehf. Afgreiðslu þeirrar umsóknar var frestað og umsækjendum gefinn frestur til 1. maí 2013 til að afla samstarfsaðila sem að mati Orkustofnunar hefði nægjanlega sérþekkingu, reynslu og bolmagn til að annast þá starfsemi sem í leyfisveitingu felst.
Í framhaldi af því mun Orkustofnun taka umsókn Eykon ehf. til lokaafgreiðslu.
Leyfisveitingar á Drekasvæðinu
Blátt: Valiant Petroleum ehf og Kolvetni ehf
Rautt: Faroe Petroleum Norge AS og Íslenskt Kolvetni ehf.
Minnisblað um veitingu sérleyfa á Drekasvæðinu