Fréttir


Hvetja ætti til frekari þróunar jarðhitanýtingar

22.11.2012

Þetta voru lokaorð Günthers Öttinger framkvæmdastjóra ESB um orkumál í ræðu sem hann hélt á vinnufundi um nýtingu jarðhita  á þéttbýlum svæðum í Brussel í síðustu viku. Orkumálastjóri sótti fundinn.


Öttinger sagði einnig að jarðhiti myndi spila mikilvægt hlutverk sem einn af framtíðar orkugjöfum Evrópusambandsins og að við ættum að hvetja til frekari jarðhitanýtingar í fleiri borgum.

Helstu niðurstöður fundarins voru að mögulega yrði jarðhiti stór hluti af framtíðar orkugjöfum Evrópusambandsins. Með jarðhita væri hægt að framleiða rafmagn, hita og kælingu á bæði há- og lághitasvæðum með möguleikum á  varmageymum neðanjarðar. Á fundinum kom fram að nú eru ráðgerðar jarðhitaveitur í Munchen og Berlín og að stór hluti Parísarborgar er þegar hitaður með jarðhita.

Kallað hefur verið eftir aðgerðaráætlun frá ESB um endurnýjanlega orkugjafa þannig að mögulegt sé að komast yfir þær hindranir sem eru í veginum á frekari þróun jarðhita innan bandalagsins.

Orkustofnun hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum tengdum jarðhita í Evrópu og veitir nú forstöðu verkefninu Geothermal ERANET sem er samstarfsverkefni nokkurra Evrópulanda sem miðar að því að auka samstarf og samhæfingu rannsókna og rannsóknaáætlana á jarðhita í Evróplöndunum. Geothermal ERA NET samstarfið er til fjögurra ára og er fyrirséð að verkefnið muni stuðla að auknu fjárflæði til jarðhitarannsókna í Evrópu sem aftur gæti þýtt ný verkefni á sviði jarðhitanýtingar.

Sjá ræðu Günther hér