Fréttir


Vel heppnuð kynning um Þróun stýriaðferða til aukinnar hagkvæmni íslenska virkjanakerfisins var haldin síðasta miðvikudag.

12.11.2012

Vel heppnuð kynning um Þróun stýriaðferða til aukinnar hagkvæmni íslenska virkjanakerfisins var haldin síðasta miðvikudag í Víðgelmi fyrirlestrarsal Orkugarðs.

Þorbergur Steinn Leifsson Byggingarverkfræðingur flutti erindi um þróun stýriaðferða til aukinnar hagkvæmni íslenska virkjanakerfisins.

Orkuforrit Verkís líkir eftir samrekstri kerfis margra vatnsaflsvirkjana sem framleiða orku inná tiltekinn fastan orkumarkað. Orkumarkaðurinn samanstendur af almennum markaði og stóriðjumarkaði með tiltekið hlutfall forgangsorku og afgangsorku. Rekstrareftirlíkingar eru á dagsgrunni út frá sögulegum rennslisröðum og skila þeirri markaðsstærð sem gefur mestar tekjur af orkusölu að teknu tilliti til  kostnaðar af orkuskorti.

Fyrir nokkrum árum veitti Orkusjóður styrk til frekari þróun forritsins, sem einkum miðaði að því að stýra vatnstöku úr einstökum miðlunarlónum á sem hagkvæmastan hátt. Til þess voru þróaðar líkindakúrfur fyrir líkum á því að einstök miðlunarlón fyllist eða tæmist miðað við stöðu þeirra hverju sinni út frá sögulegu innrennsli.

Í erindinu var líkaninu líst og þeim endurbætum sem gerðar hafa verið á því. Sýnt var hvernig ákvarðanir eru teknar og notkun þess var sýnd með nokkrum tilbúnum dæmum. Þá var fjallað um ýmsa notkunarmöguleika líkansins og frekari þróun þess.