Fréttir


Orkusetur fær viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberum rekstri fyrir varmadæluvef

30.10.2012

Orkusetur fékk í dag afhenda viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á árinu 2012. Viðurkenningin var fyrir varmadæluvef sem er gagnvirk reiknivél þar sem hægt er að finna helstu upplýsingar um gerðir og virkni varmadæla á mjög einfaldan hátt.

 

Á vormánuðum 2009 gerði Alþingi breytingar á lögum um niðurgreiðslur til húshitunar. Breytingin opnaði á möguleika ríkis til að taka þátt í stofnkostnaði við umhverfisvæna orkuöflun sem drægi úr rafhitun. Lögin snérust að miklu leyti um að gera rekstur varmadæla að fýsilegum kosti á köldum svæðum. Viðbrögð við lagabreytingunni voru hinsvegar hógvær enda var viðfangsefnið afar flókið bæði varmadælutæknin sem slík en ekki síður kostnaður við rafhitun.  Í kjölfarið var því smíðuð sjálfvirk veflausn sem opnuð var í lok árs 2010. Hryggjastykki veflausnarinnar var gagnvirk reiknivél sem svarar ýmsum spurningum varðandi fýsileika varmadæla. Vefsíðunni var afar vel tekið og árangurinn var áþreifanlegur.

Reiknivélin vísar vegin gegnum hið flókna verðumhverfi raforkunnar og reiknar út mögulega eingreiðslu (lagabreytingin) miðað við gefnar forsendur sem mjög auðvelt er að breyta og átta sig þannig á vægi mismunandi áhrifaþátta.

Utan um reiknivélina var svo smíðaður undirvefur tileinkaður varmadælum þar sem finna má helstu upplýsingar um gerðir og virkni varmadæla, sett fram á einfaldan og auðskiljanlegan hátt.  Auk þess má finna á vefnum upplýsingar um alla söluaðila á Íslandi, niðurstöður prófana á mismunandi varmadælugerðum á Íslandi og niðurstöður gæðaprófana á Norðurlöndum.

Alls bárust um 62 tilnefningar um nýsköpunarverkefni frá 31 stofnun og 11 sveitarfélögum. Eitt þeirra var valið til nýsköpunarverðlauna í opinberum rekstri og fimm til viðbótar fengu sérstaka viðurkenningu.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag stjórnenda á stjórnsýslu- og fjármálasviðum sveitarfélaga, Rannís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands stóðu saman að ráðstefnunni undir heitinu "Nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu-Betri lausnir fyrir fólk og samfélag".