Fréttir


„Dumbur hefir konungur heitið“ - Örnefnagjöf á landgrunni Íslands

26.10.2012

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 27. október, kl. 13.15 í stofu 106 í Odda, Háskóla Íslands þar sem Haukur Jóhannesson jarðfræðingur mun flytja erindi um örnefnagjöf á landgrunni Íslands

Örnefni voru staðsetningartækni fyrir tíma staðsetningartækja. Það átti við jafnt á landi sem legi. Í fyrirlestrinum verður farið nokkuð yfir eðli örnefna á sjó og hvernig þau voru notuð. Staðsetningartækni nútímans eru ógegnsæjar tölur sem ekki henta þegar lýsa þarf landsvæðum og eiginleikum þeirra. Því eru örnefni enn í dag bráðnauðsynlegt tól.

Þegar íslensk stjórnvöld hófu undirbúning að kröfugerð vegna svæða í úthafinu í grennd við landið kom í ljós að gefa þurfti fjölda nýrra örnefna til að getað lýst svæðunum á mannamáli. Þessi svæði eru utan hefðbundinna veiðislóða og engin örnefni til fyrir. Þetta er engin nýlunda því aðrar þjóðir hafa farið þessa sömu leið, s.s. Norðmenn og Írar. Í okkar tilfelli var sótt í sjóð fornbókmenntanna sem einnig er sú leið sem flestar aðrar þjóðir fara og er þar af nógu að taka. Frændur vorir Færeyingar voru á sama tíma að gefa nöfn og þeirra stefna var sú sama og okkar.

Gefin hafa verið örnefni á þremur svæðum: Drekasvæðinu milli Íslands og Jan Mayen, Ægisdjúpi austur af landinu og á Rockall-Hatton svæðinu.