Fréttir


Íslendingar aðilar að samkomulagi um innleiðingu vetnisrafbíla

11.10.2012

MoU-signing-NyOrka

Bílaframleiðendur sjá Norðurlöndin sem lykilsamstarfsaðila þegar kemur að innleiðingu vetnisrafbíla á árunum eftir 2014. Þetta kom fram í samkomulagi sem undirritað var nú á dögunum á milli nokkurra bílaframleiðanda og fulltrúa Norrænu þjóðanna.

Í tilkynningu frá Nýorku kemur fram að mikilvægt sé að hefja undirbúning slíkrar innleiðingar snemma þar sem byggja verði upp innviði til dreifingar á vetni og mikilvægt sé að bæði einka- og opinberi geirinn starfi saman við slíka uppbyggingu.

Bílaframleiðendur hafa þegar lýst því yfir að raðframleiðsla vetnisrafbíla verði raunveruleikinn árið 2015 en með samkomulaginu hafa þeir staðfest þessar áætlanir. Þá gera þeir ráð fyrir að verð á vetnisrafbílum verði sambærilegt við bensín/dísel bíla. Þróun rafbíla hefur verið hröð á undanförnum árum og ljóst að rafsamgöngur verða mikilvægur þáttur í framtíðarsamgöngukerfum segir ennfremur í tilkynningunni. Norðurlöndin eru flest að auka framboð sitt á endurnýjanlegri orkuframleiðslu og þar af leiðandi sjá bílaframleiðendurnir þessi lönd sem mikilvægan þátttakenda í innleiðingu á rafbílum.

Frekari upplýsingar um samkomulagið má finna á vef NýOrku.