Fréttir


Orkustofnun sendir út drög að leyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis

5.10.2012

Orkustofnun hefur í meginatriðum lokið úrvinnslu á umsóknum vegna útboðs sérleyfa á Drekasvæðinu.

Orkustofnun hefur leitað umsagna umhverfisráðuneytis og sjárvarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í samræmi við ákvæði laga og metið þær umsagnir með tilliti til framkominna umsókna og þeirra rannsóknaráætlana sem um ræðir. Þá hefur Orkustofnun gert mat á tæknilegri og jarðfræðilegri getu umsækjandi til að takast á við þá umfangsmiklu starfsemi sem í leyfisveitingunni felst, og einnig hefur Orkustofnun gert úttekt á fjárhagslegri getu móðurfyrirtækja umsækjenda svo tryggt verði að umsækjendur hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna verkefninu til lengri tíma.

Umsækjendur hafa fengið drög að leyfum til skoðunar og hafa þeir tvær vikur til að gera athugasemdir við drögin. Orkustofnun stefnir að því að ljúka afgreiðslu umsókna að teknu tilliti til mögulegra athugasemda umsækjenda eigi síðar en í lok nóvember næstkomandi. Hafa ber í huga að Norðmenn eiga rétt á að gerast aðilar að sérleyfum að hluta samkvæmt samningi Íslands og Noregs kjósi þeir það.